Íslenski boltinn

Stutt stopp í Vestur­bæ: Val­or aftur til Eyja

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Farinn aftur til Eyja.
Farinn aftur til Eyja. KR

Vicente Valor er genginn í raðir ÍBV á nýjan leik eftir stutt stopp hjá KR. Á hann að hjálpa nýliðum ÍBV að halda sæti sínu í Bestu deild karla í knattspyrnu.

Þessi 27 ára gamli spænski miðjumaður átti stóran þátt í að ÍBV komst upp úr Lengjudeild karla á síðustu leiktíð. Hann lék alls 27 leiki fyrir Eyjamenn og skoraði 11 mörk. Að tímabilinu loknu sannfærði Óskar Hrafn Þorvaldsson Valor um að ganga í raðir KR.

Nú hefur KR hins vegar tilkynnt að Spánverjinn hafi samið við ÍBV á nýjan leik. Samkvæmt heimildum Vísis kaupir ÍBV leikmanninn, ekki er þó vitað hversu hátt kaupverðið er. 

Valor tók þátt í báðum deildarleikjum KR til þessa sem og í 11-0 sigrinum á KÁ í Mjólkurbikarnum. Hann var hins vegar í talsvert varnarsinnaðra hlutverki en hjá ÍBV. Segja má að hann hafi átt sökina á þriðja marki Vals í ótrúlegu 3-3 jafntefli liðanna í 2. umferð. 

Fyrsti leikur Valor fyrir ÍBV í Bestu deildinni gæti komið strax á fimmtudag þegar Fram mætir til Vestmannaeyja. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×