Sport

„Ekkert til að skammast mín fyrir“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mykolas Alekna keppti á Demantamótinu í Osló þar sem hann fagnaði sigri með kasti upp á 70,91 metra.
Mykolas Alekna keppti á Demantamótinu í Osló þar sem hann fagnaði sigri með kasti upp á 70,91 metra. Getty/Maja Hitij

Heimsmethafinn Mykolas Alekna finnst gagnrýnin á sig ósanngjörn en hann setti heimsmet í kringlukasti í apríl við sérstakar og mjög hagstæðar aðstæður.

Alekna kastaði kringlunni 74,35 metra á kastmóti sem fram fór fram á opnum kastvelli í Oklahoma í Bandaríkjunum.

Vésteinn Hafsteinsson, afreksstjóri ÍSÍ, var meðal þeirra sem gagnrýndi við hvaða aðstæður metið var sett. Alekna gat líkt og aðrir keppendur mótsins nýtt sér kjöraðstæður í veðri og ljóst að vindurinn hjálpaði honum að slá heimsmetið sem staðið hafði frá árinu 1986, og var 74,08 metrar.

„Með fullri virðingu fyrir Alekna þá hef ég alltaf verið á móti þessari tegund af mótum. Mér finnst að með þessu séu menn að skjóta sig í fótinn,“ segir Vésteinn á sínum tíma við Aftonbladet og bendir á að sams konar kasti komi menn ekki til með að geta náð á stórmótum.

„Það sem gerist er að menn ná árangri í sterkum vindi og síðan verða köstin mikið styttri á stórmóti. Ég hef bent á það í tuttugu ár að þetta eru mistök,“ sagi Vésteinn.

„Ég hef ekkert til að skammast mín fyrir. Horfðu bara á hvernig gamla metið var sett,“ sagði Mykolas Alekna við Aftonbladet.

Austur-Þjóðverjinn Jürgen Schult átti gamla metið sem stóð í 38 ár. Metið var sett á bak við járntjaldið og örugglega við opnar aðstæður.

„Ef þú ætlar að bæta met sem er orðið svona gamalt þá þarftu að kasta í svona keppni og við svipaðar aðstæður. Þetta gengur aldrei á lokuðum leikvangi. Mér fannst kominn tími á að bæta þetta met,“ sagði Alekna.

„Ég er ánægður með tímabilið til þessa,“ sagði Alekna. Hann hefur kastað fjórum sinnum yfir sjötíu metra á þessu ári og er án nokkurs vafa öflugasti kringlukastari heims í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×