Fótbolti

Fimm­tíu og þrír hand­teknir á Wembl­ey í tengslum við úr­slita­leikinn

Smári Jökull Jónsson skrifar
Úrslitaleikurinn á Wembley í gær var vel sóttur af stuðningsmönnum beggja liða.
Úrslitaleikurinn á Wembley í gær var vel sóttur af stuðningsmönnum beggja liða. Vísir/Getty

Töluverð læti voru bæði á Wembley-leikvanginum og fyrir utan í tengslum við úrslitaleik Meistaradeildarinnar í gærkvöldi. Fimmtíu og þrír voru handteknir vegna atburðanna.

Úrslitaleikur Real Madrid og Borussia Dortmund fór fram í Lundúnum í gær þar sem spænsku risarnir frá Madrid unnu sinn fimmtánda Meistaradeildartitil.

Læti við Wembley-leikvanginn í tengslum við leikinn skyggja hins vegar aðeins á frábæran leik en fjölmargir einstaklingar reyndu að komast í gegnum öryggishlið við völlinn án þess að vera með miða.

Nokkrir einstaklingar náðu þar að auki að hlaupa inn á völlinn sjálfan í upphafi leiks og af þeim sökum þurfti að gera hlé á leiknum í nokkrar mínútur. Fimm milljónum punda var eytt til að tryggja öryggi í tengslum við leikinn sem virðist þó ekki hafa tekist sem skyldi.

Rússneskur aðili sem er með vinsælan streymisvef á netinu hafði lofað hverjum þeim tækist að komast inn á völlinn 300.000 pundum í verðlaun og virðist sem einhverjir hafi tekið því tilboði fagnandi.

Alls voru fimmtíu og þrír einstaklingar handteknir í London í gærkvöldi vegna ólátanna en á vefmiðlinum X mátti meðal annars finna myndbönd þar sem sést var einstaklingar reyna að hlaupa í gegnum öryggishlið við völlinn.

Atvikin minna á vandamál í tengslum við úrslitaleik Real Madrid og Liverpool fyrir tveimur árum síðar þar sem fjölmargir stuðningsmenn Liverpool sem voru með miða komust ekki inn á leikvanginn í París á meðan miðalausir aðilar komust inn. UEFA þurfti að biðja bæði félögin afsökunar vegna atburðanna.


Tengdar fréttir

UEFA biður Liverpool og Real Madrid afsökunar

Tæpri viku eftir úrslitaleik Meistaradeildarinnar í París hefur knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, loks beðist afsökunar á þeirri óreiðu sem varð fyrir utan Stade de France leikvanginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×