Fótbolti

Tveimur leikjum frá ó­dauð­leika

Valur Páll Eiríksson skrifar
Alonso er spenntur fyrir leik kvöldsins.
Alonso er spenntur fyrir leik kvöldsins. Getty

Bayer Leverkusen er tveimur leikjum frá ótrúlegu taplausu og þriggja titla tímabili. Fyrri hraðahindrunin er úrslitaleikur Evrópudeildarinnar við Atalanta í kvöld.

Spánverjinn Xabi Alonso hefur stýrt Leverkusen til magnaðs árangurs á yfirstandandi leiktíð. Félagið vann sinn fyrsta Þýskalandsmeistaratitil í sögunni og fór taplaust í gegnum deildarkeppnina.

Úrslitaleikur Leverkusen og Atalanta er klukkan 19:00 í kvöld. Hann verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.

Það sem meira er hefur liðið ekki tapað einum einasta fótboltaleik, hvort sem er í þýska bikarnum eða Evrópudeildinni. Áður en kemur að bikarúrslitum við 2. deildarlið Kaiserslautern um helgina er það úrslitaleikur Evrópudeildarinnar við sterkt lið Atalanta frá Ítalíu í kvöld.

Klippa: Xabi Alonso situr fyrir svörum fyrir úrslitaleikinn

„Það er mikil spenna, en starfið mitt er bara fyrir leik,“ sagði Alonso á blaðamannfundi í gær fyrir leik kvöldsins.

„Þegar boltinn fer að rúlla eru það bara leikmennirnir. Við höfum verið að búa okkur undir svona augnablik í allan vetur, það er ekki bara tveggja daga dæmi. Sem betur fer er ég með frábært lið,“

„Leikmennirnir eru vel undirbúnir, við höfum sýnt það í vetur og þessi leikur verður ekkert öðruvísi. Við berum mikla virðingu fyrir Atalanta en við erum fullir sjálfstrausts,“ segir Alonso.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×