Fótbolti

Guð­rún og stöllur enn með fullt hús stiga

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Guðrún Arnardóttir í leik með FC Rosengård.
Guðrún Arnardóttir í leik með FC Rosengård. Vísir/Getty

Guðrún Arnardóttir lék allan leikinn þegar Rosengård lagði Häcken í efstu deild sænska fótboltans í kvöld. Guðrún var ekki eini Íslendingurinn sem kom við sögu í kvöld en Katla Þórðardóttir skoraði mark Örebro sem hefur ekki enn unnið leik.

Guðrún og stöllur hennar í Rosengård hafa farið vel af stað og eru með fullt hús stiga að loknum sex leikjum. Guðrún lék að venju allan leikinn í hjarta þriggja manna varnar liðsins sem vann 2-0 sigur í kvöld þökk sé mörkum Momoko Tanikawa og Olivia Schough.

Rosengård með 18 stig að loknum sex leikjum líkt og Hammarby sem vann 1-0 sigur á Pitea í kvöld. Bæði lið hafa aðeins fengið á sig tvö mörk til þessa.

Íslendingalið Örebro tapaði sjötta leik sínum í röð í kvöld þegar liðið lá 2-1 gegn Norrköping. Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir var í byrjunarliði Örebro líkt og Katla María Þórðardóttir.

Áslaug Dóra var tekin af velli í hálfleik en í hennar stað kom Bergþóra Sól Ásmundsdóttir inn af bekknum. Katla María lék allan leikinn og skoraði mark Örebro þegar stundarfjórðungur lifði leiks. Það dugði ekki til þar sem Norrköping skoraði tvívegis í fyrri hálfleik og Íslendingaliðið situr því sem fastast á botni deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×