Fótbolti

Um­boðs­maður Davies gagn­rýnir lands­liðsþjálfarann

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fyrirliðinn Davies hefur þrátt fyrir ungan aldur spilað 58 A-landsleiki.
Fyrirliðinn Davies hefur þrátt fyrir ungan aldur spilað 58 A-landsleiki. Omar Vega/Getty Images

Vinstri bakvörðurinn Alphonso Davies sleit krossband í hné á dögunum og mun ekki leika meira með Bayern München á þessari leiktíð. Ólíklegt er að hann spili aftur fyrr en á næsta ári.

Þessi öskufljóti 24 ára gamli bakvörður skrifaði nýverið undir nýjan samning við Bayern til ársins 2030. Gamli samningur hans hefði runnið út í sumar og hafði hann verið orðaður við nær öll stórlið Evrópu, þá helst Real Madríd. Raunar var sagt að leikmaðurinn hefði náð munnlegu samkomulagi við Real.

Davies verður hins vegar að bíta í það súra epli að vera á meiðslalistanum næstu mánuðina eftir að meiðast með kanadíska landsliðinu. Umboðsmaður hans er allt annað en sáttur með Jesse Marsch, landsliðsþjálfara.

Umboðsmaðurinn segir að Davies hafi ekki átt að byrja leikinn gegn Bandaríkjunum en leikið var um 3. sætið í Þjóðadeild CONCACAF.

„Alphonso var ekki 100 prósent eftir leikinn gegn Mexíkó og hann átti ekki að byrja gegn Bandaríkjunum. Þar sem hann er fyrirliði liðsins tel ég að sett hafi verið pressa á hann myndi spila og hann er ekki týpan til að segja nei,“ sagði Nedal Huoseh, umboðsmaður Davies.

„Hann endaði á að spila leikinn og sjáið hvað gerist. Að mínu mati þarf Knattspyrnusamband Kanada að standa sig betur þegar kemur að velferð leikmanna,“ sagði hann einnig.

Knattspyrnusamband Kanada hefur ekki tjáð sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×