Fótbolti

Læri­sveinar Freys lifa í voninni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Freyr Alexandersson gæti tekist hið ómögulega. Aftur.
Freyr Alexandersson gæti tekist hið ómögulega. Aftur. Isosport/Getty Images

KV Kortrijk, lið Freys Alexanderssonar, vann lífsnauðsynlegan sigur í belgísku úrvalsdeild karla í fótbolta. Liðið er í bullandi fallbaráttu en sigurinn heldur vonum liðsins um að spila áfram í efstu deild á lífi.

Kortrijk vann 1-0 útisigur á RWDM þökk sé marki Nayel Mehssatou Sepulveda eftir rúmlega stundarfjórðung. Sigurinn þýðir að lærisveinar Freys eru nú með 28 stig, tveimur frá umspilsleik við lið úr B-deild um sæti í efstu deild á næstu leiktíð, þegar tvær umferðir eru eftir.

Í Noregi var fjöldi Íslendinga í eldlínunni en fáir gerðu þó eitthvað markvert í dag. Brynjólfur Andersen Willumsson var hins vegar á skotskónum en hann skoraði annað mark Kristiansund þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Strømsgodset. Gestirnir í Kristiansund komust 2-0 yfir en heimamenn svöruðu og lauk leiknum með jafntefli.

Brynjólfur spilaði allan leikinn, Hilmir Rafn Mikaelsson spilaði síðustu tíu mínúturnar í liði gestanna og Logi Tómasson lék rúmlega klukkustund í liði heimamanna. Mörkin úr leiknum má finna á Youtube-síðu TV 2.

Júlíus Magnússon bar fyrirliðaband Fredrikstad þegar liðið vann 1-0 heimasigur á Sandefjord. Þá töpuðu lærisveinar Óskars Hrafns Þorvaldssonar í Haugesund 2-1 fyrir Molde á útivelli. 

Fredrikstad er í 6. sæti með 8 stig eftir fimm leiki líkt og Kristiansund. Haugesund er í 12. sæti með 6 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×