Fótbolti

Fékk ellefu leikja bann fyrir geislann úr heiðursstúkunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nahuel Guzman er á leið í langt bann fyrir barnalega hegðun sína í heiðursstúkunni.
Nahuel Guzman er á leið í langt bann fyrir barnalega hegðun sína í heiðursstúkunni. Getty/Mauricio Salas

Nahuel Guzmán, markvörður fótboltaliðsins Tigres í Mexíkó, fékk þungan dóm frá mexíkanska knattspyrnusambandinu.

Guzmán var meiddur í leik á móti erkifjendunum í Monterrey á dögunum og vildi greinilega ólmur hafa áhrif á leikinn. Það varð honum dýrkeypt.

Guzmán reyndi að trufla kollega sinn í marki Monterrey með því að beina að honum leysigeisla. Guzmán gerði þetta úr heiðursstúkunni.

Það er ekki eins og þetta sé einhver óþroskaður táningur að byrja feril sinn, nei þetta er 38 ára Argentínumaður og reyndasti leikmaður liðsins.

Það náðist á myndbönd þegar Guzmán beindi geislanum í andlit Esteban Andrada sem stóð í marki Monterrey.

Guzmán baðst afsökunar á samfélagsmiðlum daginn eftir en þá höfðu myndir og myndbönd farið á mikið flug á samfélagsmiðlum.

Knattspyrnusamband Mexíkó ákvað að dæma hann í ellefu leikja bann, hann fékk sekt og þarf einnig að sinna samfélagsþjónustu. Félag hans Tigres mun líka beita leikmanninum sektum.

Guzmán er meiddur á hné og hefur ekki spilað síðan 9. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×