Innlent

Réðst á mann með sveðju en fer ekki inn

Árni Sæberg skrifar
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Vísir/Vilhelm

Ungur karlmaður hefur verið dæmdur til tólf mánaða skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa slegið mann í höfuðið og skorið með sveðju. 

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn var upp í gær, segir að maðurinn hafi verið ákærður fyrir að hafa aðfaranótt laugardags í apríl árið 2021 í Reykjavík, ráðist vopnaður sveðju, hníf og úðavopni að manni, slegið og skorið hann með sveðjunni í höfuðið og á aftanverðan háls. Eftir að maðurinn náði sveðjunni af honum spreyjað úr úðavopninu á hann og ógnað honum með hnífnum, með þeim afleiðingum að maðurinn hlaut sex sentimetra langan skurð ofanvert vinstra megin á höfði, sem náði niður að höfuðkúpu og fimm sentimetra skurð á aftanverðum hálsi, sem náði inn í vöðvalag.

Við fyrirtöku málsins hafi ákæruvaldið hins vegar fallið frá þeim hluta ákærunnar sem sneri að beitingu úðavopns. Að þeim lið felldum brott hafi maðurinn játað þá háttsemi sem honum var gefin að sök og krafist vægustu refsingar sem lög leyfa, sem yrði skilorðsbundin að öllu leyti.

Langt um liðið og ungur að aldri

Í dómi héraðsdóms segir með játningu mannsins hafi verið sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök. Þá hafi háttsemin verið rétt heimfærð til ákvæðis hegningarlaga um sérstaklega hættulega líkamsárás.

Maðurinn hafi þriggja mánaða fangelsisdóm, skilorðsbundinn til tveggja ára, árið 2022. Brot mannsins hafi verið framið fyrir uppkvaðningu þess dóms og því yrði honum dæmdur hegningarauki.

Við ákvörðun refsingar yrði litið til grófleika árásarinnar og afleiðinga hennar. Árásin hafi verið fólskuleg og beinst að höfði brotaþola.

Til mildunar refsingar yrði hins vegar litið til ungs aldurs mannsins og þess að þrjú ár eru liðin frá árásinni, án þess að honum yrði kennt um drátt á málinu. 

Refsing hans þyki hæfilega ákveðin tólf mánaða fangelsis, en með hliðsjón af aldri mannsins og drátti á málinu þyki rétt að skilorðsbinda hana til tveggja ára.

Vildi tvær milljónir en fær 700 þúsund

Í dóminum segir að fyrir höd brotaþola hafi verið gerð krafa um miskabætur upp á tvær milljónir króna auk ótilgreindra skaðabóta.

Dómurinn taldi miskabætur hæfilega ákveðnar 700 þúsund krónur og vísaði skaðabótakröfu frá dómi þar sem hún uppfyllti ekki áskilnað laga um meðferð einkamála um tilgreiningu fjárhæðar kröfu.

Loks var manninum gert að greiða málvarnarlaun skipaðs verjanda síns, 260 þúsund krónur, þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, 190 þúsund krónur, og 75 þúsund krónur í annan sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×