Fótbolti

Evrópu­meistararnir frá Manchester án máttar­stólpa í Madríd

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ekki með í Madríd.
Ekki með í Madríd. Robbie Jay Barratt/Getty Images

Evrópumeistarar Manchester City mæta með heldur laskaða varnarlínu til leiks í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu þar sem liðið sækir Real Madríd heim. Leikurinn er sýndur beint á Vofadone Sport og hefst útsending klukkan 18.50.

Pep Guardiola og lærisveinar hans flugu til Madríd í dag, mánudag. Ferðaðist liðið án þeirra Kyle Walker og Nathan Aké. Sá fyrrnefndi meiddist í verkefni með enska landsliðinu fyrir skemmstu á meðan Aké meiddist í stórleiknum gegn Arsenal um páskana.

Um er að ræða mikið högg fyrir Man City þar sem þeir Walker og Aké hafa verið í lykilhlutverki það sem af er leiktíð.

Hinn 33 ára gamli Walker hefur spilað fimm leiki í Meistaradeildinni það sem af er leiktíð og alls 38 leiki í öllum keppnum. Á sama tíma hefur hinn 29 ára gamli Aké spilað sjö leiki í Meistaradeildinni og alls 37 leiki í öllum keppnum.

Hinn 22 ára gamli Joško Gvardiol æfði ekki með liðinu í dag en ferðaðist þó með því til Madríd. Það er þó óvístt hvort hann sé heill heilsu eður ei.

Leikur Real Madríd og Man City hefst klukkan 19.00 annað kvöld, þriðjudag. Leikurinn er sýndur beint á Vodafone Sport en hitað verður upp á Stöð 2 Sport sem og hann verður gerður upp eftir að leik lýkur. Upphitun hefst 18.35 og Meistaradeildarmörkin hefjast 21.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×