Íslenski boltinn

„Ef það er eitt­hvað lið sem getur veitt Breiðabliki og Víkingi keppni er það Valur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Valsmenn fagna marki síðasta sumar. Þeir skoruðu næstmest allra liða, eða 66 mörk.
Valsmenn fagna marki síðasta sumar. Þeir skoruðu næstmest allra liða, eða 66 mörk. vísir/anton

Baldur Sigurðsson, sérfræðingur Stúkunnar, segir þrátt fyrir að brotthvarf Gylfa Þórs Sigurðssonar veiki Val sé liðið á ágætis stað fyrir komandi tímabil.

Val er spáð 3. sæti Bestu deildar karla í spá íþróttadeildar Vísis og Stöðvar 2. Valsmenn enduðu í 3. sæti í fyrra og náðu Evrópusæti.

„Ég myndi klárlega segja að þeir séu á aðeins verri stað, klárlega. Gylfi var, þótt við gerum miklar væntingar til hans, ágætur síðasta sumar en árangurinn kannski vonbrigði. Það sem er breytt í dag og það sem þetta gerir líka er að þetta tekur ákveðna pressu af þeim. Við erum ekki að sjá neina umræðu, sem er eðlilegt, að þeir eigi að vera að berjast um einhvern titil. Það eru engar væntingar til þess í ár,“ sagði Baldur.

Klippa: 3. sæti Valur

Baldur segir að Valsmenn komi með góðan meðbyr inn í tímabilið.

„Eftir stendur samt hörku leikmannahópur og góður árangur í vetur þannig ég held að þeir séu nokkuð sáttir með stöðuna eins og hún er. Þeir eru aðeins að sigla undir radarinn og ef það er eitthvað lið sem getur veitt Breiðabliki og Víkingi einhverja keppni er það Valur. En þá þurfa þeir að hitta á fullkomið tímabil og lykilmenn þurfa að eiga sín bestu tímabil í efstu deild,“ sagði Baldur.

Valur tekur á móti Vestra í fyrsta leik sínum í Bestu deildinni á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×