Innlent

Barnið stökk út úr bílnum á ferð

Árni Sæberg skrifar
Níu ára börn eiga ekki að aka leigubílum.
Níu ára börn eiga ekki að aka leigubílum. Vísir

Níu ára piltur sem stalst til þess að aka leigubíl um Bakkana í Breiðholti á sunnudag stökk út úr bílnum á ferð þegar lögregla kom auga á hann. Bíllinn endaði uppi á kantsteini og skemmdist lítillega.

Heimir Ríkharðsson, lögreglufulltrúi hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að drengurinn hafi tekið leigubílinn, sem tengist honum ekki með nokkrum hætti, ófrjálsri hendi í einum af Bökkunum í Breiðholti. 

Ók aðeins innan hverfisins

Tilkynnt hafi verið um stolinn bíl og lögreglumenn því farið á stjá um hverfið. Þeir hafi komið auga á bílinn og piltinn undir stýri. Pilturinn hafi þá stokkið út úr bílnum án þess að stöðva hann og bíllinn endað uppi á kantsteini.

Heimir telur að drengurinn hafi ekið bílnum um nokkur hundruð metra leið innan hverfisins. Myndskeið sem tekið var af athæfi piltsins á sunnudag hefur vakið mikla athygli.

Lögregla skiptir sér ekki frekar af

Heimir segir að málið teljist að fullu upplýst hvað lögreglu varðar og það sé alfarið á borði barnaverndaryfirvalda, enda sé pilturinn aðeins níu ára og því ekki sakhæfur.


Tengdar fréttir

Barn ók leigubíl í leyfisleysi

Myndskeið af ungu barni aka leigubíl um götur Breiðholts hefur verið í mikilli dreifingu á samfélagsmiðlum um helgina. Lögreglan segir málið unnið í samstarfi við foreldra og barnaverndaryfirvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×