Innlent

Inn­brot til rann­sóknar eftir nóttina

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Nóttin var heldur hefðbundin.
Nóttin var heldur hefðbundin. vísir/vilhelm

Lögregla hefur til rannsóknar tvö innbrot eftir nóttina. Eitt á skemmtistað og annað í verslun.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Innbrotin áttu sér stað á skemmtistað í Vogahverfi og í verslun á Kársnesi.

Auk þessa sinnti lögregla tilkynningu um mann sem hafði komið sér fyrir í gámi á svæði fyrirtækis í Hlíðahverfi. Maðurinn hafði látið sig hverfa þegar lögreglu bar að garði.

Raunar virðist lögregla ekki hafa tekist að hafa hendur í hári þeirra sem grunaðir voru um misferli í öllum tilfellum. Tilkynnt var um öskrandi menn í miðbænum auk grunsamlegra mannaferða í Hlíðunum án þess að menn hafi fundist. Sama má segja um mann sem er sagður hafa ónáðað gesti á hóteli í miðbænum. 

Þá virðast erjur miðbæjarbúa og skemmtistaða ætla að halda áfram. Samkvæmt lögreglu var tilkynnt um „mikinn tónlistarhávaða“ frá skemmtistað í miðbænum. „Lögregla sinnti,“ segir í dagbók lögreglu um það verkefni.

Þá virðist nóttin hafa gengið fyrir sig með hefðbundnu sniði; ölvunarakstur, hraðaakstur og menn í annarlegu ástandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×