Fótbolti

Gylfi Þór hetjan síðast þegar Ís­land og Úkraína mættust

Aron Guðmundsson skrifar
Gylfi Þór í leiknum gegn Úkraínu 2017
Gylfi Þór í leiknum gegn Úkraínu 2017 Vísir/Anton

Ís­lenska karla­lands­liðið í fót­bolta mun á morgun leika hreinan úr­slita­leik gegn Úkraínu um laust sæti á komandi Evrópu­móti. Liðin hafa alls mæst fjórum sinnum í móts­leikjum. Gylfi Þór Sigurðs­son var hetja Ís­lands í síðustu viður­eign liðanna.

Úr­slita­leikur Ís­lands og Úkraínu fer fram á Tarczynski leik­vanginum í Wroclaw í Pól­landi. Leik­vangurinn tekur um fjöru­tíu og þrjú þúsund manns í sæti og sigur­liðið mun tryggja sér far­miðann á EM í Þýska­landi.

Að­eins fimm af nú­verandi leik­mönnum sem mynda lands­liðs­hóp Ís­lands voru í leik­manna­hópi liðsins í síðustu viður­eign gegn Úkraínu í undan­keppni HM 2018 sem fór fram á Laugar­dals­velli.

Það eru þeir Sverrir Ingi Inga­son, Jóhann Berg Guð­munds­son, Al­freð Finn­boga­son, Hjörtur Her­manns­son og Arnór Ingvi Trausta­son.

Árið 2017 er eitt af gull­aldar­árum ís­lenska lands­liðsins sem hafði árið áður komist í fyrsta sinn á stór­mót, EM 2016, þar sem að liðið vann hug og hjörtu heims­byggðarinnar. Komst alla leið í átta liða úr­slit mótsins.

Í undan­keppni HM 2018 hélt ís­lenska lands­liðið upp­teknum hætti, toppaði riðil sinn og tryggði sér beint sæti á HM í Rúss­landi. Á þeirri veg­ferð sinni kom lands­lið Úkraínu í heim­sókn í septem­ber árið 2017.

Troð­fullur Laugar­dals­völlur hvatti Strákana okkar leggja Úkraínu­menn af velli. Tvenna frá Gylfa Þór Sigurðs­syni sigldi sigrinum heim.

Hér fyrir neðan má sjá helstu at­riði úr síðasta leik Ís­lands og Úkraínu. Stór­leikur morgun­dagsins verður svo á dag­skrá Stöðvar 2 Sport í beinni út­sendingu og opinni dag­skrá. Vonumst eftir svipuðum úr­slitum. Þá verður EM sætið tryggt.


Leikur Úkraínu og Íslands verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport þriðjudaginn 26. mars. Leikurinn hefst klukkan 19.45 en upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 19.10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×