Erlent

Lík Navalní af­hent móður hans

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Rússnesk yfirvöld höfðu áður sagst vilja grafa hann í kyrrþey í fanganýlendunni þar sem hann lést.
Rússnesk yfirvöld höfðu áður sagst vilja grafa hann í kyrrþey í fanganýlendunni þar sem hann lést. AP/Michel Euler

Lík rússneska andspyrnuleiðtogans Alexej Navalní hefur verið afhent Ljúdmílu Navalnaja móður hans. Hann lést í fangelsi í Síberíu á dögunum.

Ljúdmíla hafði greint frá því áður í ávarpi að rússnesk yfirvöld hefðu ætlað að grafa hann í kyrrþey í kirkjugarði fanganýlendunnar þar sem hann lést. Þrýstingur fjölskyldunnar og stuðningsmanna þeirra virðist hafa borið árangur.

Kira Yarmysh talskona Navalní greinir frá þessu í færslu á samfélagsmiðlinum X. Þar segir hún að móðir hans sé enn stödd í heimskautaborginni Salekhard og veit ekki hvort yfirvöld muni skipta sér af því hvernig jarðarförinni verður háttað.

„Lík Alexejs hefur verið afhent móður hans. Við þökkum öllum þeim sem kröfðust þessa með okkur,“ skrifar hún í færslunni.

Hún segist ekki vita hvort yfirvöld muni reyna að koma í veg fyrir að Navalní verði lagður til hinstu hvílu að hefðbundnum sið eins og hann eigi skilið.

„Við látum ykkur vita um leið og fregnir berast.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×