Erlent

Fella niður hluta á­kæru á hendur meintum sveppamorðingja

Kjartan Kjartansson skrifar
Erin Patterson og grænserkssveppur, svipaður þeim sem talið er að notaður hafi verið í máltíðina sem varð fyrrverandi tengdaforeldrum hennar að bana.
Erin Patterson og grænserkssveppur, svipaður þeim sem talið er að notaður hafi verið í máltíðina sem varð fyrrverandi tengdaforeldrum hennar að bana. ABC/Getty

Saksóknarar í Ástralíu hafa fellt niður hluta af ákæru á hendur fimmtugri konu sem er sökuð um að hafa drepið þrennt með því að gefa þeim eitraða sveppi. Hún á enn yfir höfði sér ákæru um þrjú mannsdráp og eina tilraun til manndráps.

Erin Patterson er sökuð um að drepa þrjá matargesti og reyna að drepa þann fjórða í júlí árið 2023. Grænserkur, einn eitraðasti sveppur í heimi, reyndist vera í réttinum sem hún bar á borð fyrir gestina.

Gestirnir voru fyrrverandi tengdaforeldrar Patterson, móðursystir fyrrverandi eiginmannsins og eiginmaður hennar. Tengdaforeldarnir létust báðir og móðursystirin sömuleiðis en eiginmaður hennar komst lífs af.

Patterson var einnig ákærð fyrir að ætla að reyna að drepa fyrrverandi eiginmann sinn en hann hætti við að mæta á síðustu stundu. Hún var einnig ákærð fyrir að reyna að ráða hann af dögum þrisvar áður. Nú hafa saksóknarar hins vegar ákveðið að fella út þann hluta ákærunnar sem fjallar um meintar tilraunir Patterson til þess að myrða fyrrverandi eiginmanninn, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Réttarhöld yfir Patterson eiga að hefjast í Hæstarétti Viktoríuríkis á morgun. Hún hefur alla tíð neitað sök.


Tengdar fréttir

Sagðist sak­laus af því að hafa drepið með eitruðum sveppum

Áströlsk kona sem er ákærð fyrir að valda dauða þriggja manna með því að gefa þeim eitraða sveppi lýsti yfir sakleysi sínu þegar málið kom fyrir dómara í dag. Hún heldur því fram að hún hafi ekki eitrað vísvitandi fyrir fólkinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×