Erlent

Sendi­herrar Banda­ríkjanna og Bret­lands minnast Naval­ní

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Nigel Casey við minnisvarðann í Moskvu.
Nigel Casey við minnisvarðann í Moskvu. Sendiráð Breta í Rússlandi

Sendiherrar Bandaríkjanna og Bretlands í Rússlandi lögðu báðir blóm að minnisvarða um andófsmanninn Alexei Navalní nú um helgina. Talið er að um 400 manns hafi verið handteknir á fjöldafundum í kjölfar dauða Navalní í síðustu viku.

Fjöldi fólks hefur lagt blóm að Solovetsky-steininum í Moskvu, sem er minnisvarði um fórnarlömb pólitískra ofsókna, eftir að greint var frá því að Navalní hefði látist í fangelsi.

„Í dag syrgjum við dauða Alexei Navalní og annarra fórnarlamba pólitískra ofsókna í Rússlandi við Solovetsky-steininn,“ sagði sendiráð Bandaríkjanna í Moskvu á samfélagsmiðlum.

„Við vottum fjölskyldu Alexei Navalní, samstarfsmönnum og stuðningsmönnum okkar dýpstu samúð. Styrkur hans var innblástur og öðrum til eftirbreytni. Við heiðrum minningu hans.“

Sendiráð Bretlands birti mynd af sendiherranum, Nigel Casey, við minnisvarðann og kallaði einnig eftir ítarlegri og gegnsærri rannsókn á dauða Navalní. 

Utanríkisráðuneytið hefði kallað sendiherra Rússlands á teppið og þeim skilaboðum komið til áleiðis að Bretar teldu stjórnvöld í Rússlandi ábyrg fyrir dauða Navalní.

Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, ræddu saman í gær og voru sammála um nauðsyn þess að draga seku til ábyrgðar.

Yulia, eiginkona Navalní, mun hitta utanríkisráðherra Evrópusambandsríkjanna í dag. Fjölmiðlar hafa greint frá því að móðir hans, Lyudmila, hafi komið að lokuðum dyrum þegar hún hugðist vitja um líkamsleifar sonar síns í bænum Salekhard.

Var henni tjáð að fyrsta krufning líksins hefði ekki skilað niðurstöðu og að gera þyrfti aðra krufningu.

Vladimir Pútín Rússlandsforsti hefur ekki tjáð sig um dauða Navalní, sem var hans harðasti gagnrýnandi, en það hefur verið staðfest að forsetinn hafi verið uppýstur um tíðindin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×