Innlent

Erfitt að segja til um elds­upp­tökin

Jón Þór Stefánsson skrifar
Mynd frá vettvangi fyrr í kvöld.
Mynd frá vettvangi fyrr í kvöld. Vísir/Sigurjón

Slökkvistarf vegna eldsvoðans í Fellsmúla mun halda áfram fram á nóttina. Varðstjóri hjá slökkviliðinu segir í samtali við fréttastofu að hann vonist til að endanlega takist að slökkva eldinn í nótt.

„Ég ætla rétt að vona það,“ segir Lár­us Stein­dór Björns­son, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

Hann segir eldsupptök ekki liggja fyrir að svo stöddu og segir ekki hægt að segja til um hvort grunur sé um íkveikju. Þegar slökkvilið sé búið að slökkva eldin muni lögregla taka við rannsókninni.

Eldurinn kviknaði í iðnaðarhúsnæði við Fellsmúla og Grensásveg síðdegis í gær, fimmtudag. Allt tiltækt slökkvilið var kallað til vegna eldsins, sem jókst skyndilega rétt fyrir klukkan sjö í gærkvöld.

Lárus telur að um tuttugu slökkviliðsmenn haldi áfram störfum í nótt, en þegar fréttastofa náði tali af honum voru vaktaskipti að eiga sér stað hjá slökkviliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×