Innlent

„Það virðast ein­hverjir brennu­vargar vera á ferð“

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur verið á fleygiferð í kvöld.
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur verið á fleygiferð í kvöld. Vísir/Vilhelm

Kveikt var í þremur mannlausum bílum fyrir framan bifvélaverkstæði við Smiðjuveg í Kópavogi í kvöld. Slökkviliðið hefur þar að auki verið á fleygiferð um bæinn í kvöld við að slökkva í smærri eldum.

Bjarni Ingimarsson, innivarðstjóri slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti það við fréttastofu.

Tilkynnt var um eldinn á Smiðjuvegi um klukkan níu í kvöld en að sögn Bjarna var eldurinn ekki mikill þegar slökkvilið kom á vettvang. Vökva hafi verið hellt yfir bílana, sennilega bensíni og síðan var kveikt í því.

Að sögn varðstjóra logaði eldurinn bara utan á bílunum og á dekkjunum og voru slökkviliðsmenn því fljótir að slökkva eldinn.

Hafið þið staðið í einhverju öðru í kvöld?

„Við erum búnir að vera á fleygiferð. Það er búið að kveikja í gámi upp við Salaskóla, kveikja í rusli á Bíldshöfða og kveikt í rusli uppi á Lambhagavegi í Grafarholti. Það er búið að slökkva þetta allt saman,“ sagði Bjarni.

„Það virðast einhverjir brennuvargar vera á ferð. Það er þrettándinn, kannski verið að gera aukabrennnur,“ bætti Bjarni við. Hins vegar hafi um viðráðanlega elda að ræða og lítið tjón hlotist af brennunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×