Fótbolti

Sæ­dís full­komnar árið með samningi í Noregi

Sindri Sverrisson skrifar
Sædís Rún Heiðarsdóttir varð A-landsliðskona og atvinnumaður á þessu ári, auk þess að spila í lokakeppni EM U19-landsliða.
Sædís Rún Heiðarsdóttir varð A-landsliðskona og atvinnumaður á þessu ári, auk þess að spila í lokakeppni EM U19-landsliða. vísir/Arnar

Knattspyrnukonan unga Sædís Rún Heiðarsdóttir hefur vægast sagt átt gott ár og er nú komin út í atvinnumennsku því hún skrifaði undir þriggja ára samning við Noregsmeistara Vålerenga.

Sædís, sem er aðeins 19 ára gömul, kemur til norska stórliðsins frá Stjörnunni þar sem hún hefur spilað allan sinn feril í meistaraflokki, en Sædís er uppalin hjá Víkingi í Ólafsvík.

Hún hefur átt frábært ár því hún var fyrirliði U19-landsliðsins sem fór í lokakeppni EM í sumar og vann sér einnig inn sæti í A-landsliðinu þar sem hún lék sína fimm fyrstu leiki í haust og vetur.

Sædís sér til þess að áfram verður Íslendingur í herbúðum Vålerenga þrátt fyrir að Ingibjörg Sigurðardóttir hafi nú yfirgefið félagið, eftir að samningur hennar rann út. Samningur Sædísar við félagið er til næstu þriggja ára.

Sædís Rún Heiðarsdóttir til varnar í sínum fyrsta byrjunarliðsleik fyrir A-landsliðið, 19 ára gömul.VÍSIR/HULDA MARGRÉT

„Ég hef trú á því að ég muni geta hjálpað til við að gera liðið betra, og ég hlakka mikið til að þróast sem leikmaður með liðinu. Vålerenga er stórt félag með stór markmið, og vonandi náum við þeim saman,“ sagði Sædís á heimasíðu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×