Innlent

Biðlar til fólks að fara úr Grinda­vík

Jón Þór Stefánsson og Margrét Björk Jónsdóttir skrifa
Víðir Reynisson segir gosið sem betur fer ekki renna í átt að byggð.
Víðir Reynisson segir gosið sem betur fer ekki renna í átt að byggð. Vísir/Ívar Fannar

Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, segir að eldgosið sem hófst í kvöld sé sem betur fer renna í norður og norðvestur sem ógni síður byggð í Grindavík. Ekki er útilokað að hraunrennslið breytist og því erfitt að segja til um framhaldið.

„Miðað við stærðina er þetta frekar stórt gos,“ segir hann.

„Það er ómögulegt að segja,“ segir Víðir aðspurður um hvort gosið ógni byggð í Grindavík, en eins og staðan er núna gerir gosið það ekki. Það rennur nú í átt að varnargörðum og í átt að Grindavíkurvegi. „Sem betur fer virðist þetta vera að fara bestu leið.“

Víðir biðlar til fólks sem er í Grindavík að fara þaðan. Fólk eigi ekki að hafa verið þar, en vitað sé að fólk hafi verið þar undanfarið í leyfisleysi.

Einnig biðlar hann til fólks að gefa viðbraðgsaðilum frið til að tryggja öryggi.

Víðir telur að enginn hafi verið í hættu þegar gosið hófst. Einhverjir hafi verið að vinna í grennd við Reykjanesskaga í kvöld en farið þegar skjálftahrina hófst í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×