Innlent

Notkun hljóð­bóka stór­aukist en lestur dregist saman

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Þetta er sjöunda árið sem Miðstöð íslenskra bókmennta kannar lestrarhegðun þjóðarinnar og viðhorf til lestrar og bókmenningar.
Þetta er sjöunda árið sem Miðstöð íslenskra bókmennta kannar lestrarhegðun þjóðarinnar og viðhorf til lestrar og bókmenningar. Vísir/Arnar

Notkun hljóðbóka hefur aukist um 145 prósent á síðustu sex árum hérlendis á meðan lestur bóka hefur dregist saman um sautján prósent samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar á vegum Miðstöðvar íslenskra bókmennta.

Í samantekt á niðurstöðum könnunarinnar, sem birt var á vef Stjórnarráðsins í dag kemur fram að helsta breyting á lestrarvenjum Íslendinga sé veruleg aukning í notkun hljóðbóka. 

Þau yngstu lesa meira en áður

Samkvæmt niðurstöðum hlustar hver Íslendingur að meðaltali á 2,4 bækur á mánuði og ver til þess þrjátíu til sextíu mínútum á dag. Fram kemur að ekki sé marktækur munur á elsta og yngsta hópnum í lestri og hlustun á bókum en báðir hópar lesa eða hlusta á 2,2 bækur á mánuði. Þá segir að þau yngstu lesi meira en í fyrra en þau elstu minna. 

Að auki kom fram að næstum helmingur þjóðarinnar, eða 47 prósent, hafi nýtt sér þjónustu bókasafna undanfarið ár. Bókagjafir njóti enn mikillar hylli en 61 prósent gaf bók í gjöf á síðasta ári samkvæmt niðurstöðum. 

Loks segir í niðurstöðum að mikill meirihluti þjóðarinnar sé hlynntur opinberum stuðningi við íslenskar bókmenntir en 77 prósent svarenda töldu stuðninginn mikilvægan samanborið við 74 prósent í fyrra. 

Þetta er í sjöunda skiptið sem könnun á lestrarhegðun þjóðarinnar og viðhorf hennar til lestrar og bókmenningar er lögð fyrir þjóðina. Auk Miðstöðvar íslenskra bókmennta standa Borgarbókasafn Reykjavíkur, Félag íslenskra bókaútgefenda, Hagþenkir, Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn, Reykjavík – Bókmenntaborg UNESCO og Rithöfundasamband Íslands að könnuninni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×