Innlent

Hættustigi fylgi á­kveðið öryggi

Bjarki Sigurðsson skrifar
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja, er í vinnuhópnum.
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja, er í vinnuhópnum. Vísir/Vilhelm

Hættustigi fylgir ákveðið öryggi að sögn vinnuhóps bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar. Hættustig almannavarna var virkja þar í morgun vegna tjóns sem varð á neysluvatnslögn til Eyja.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá hópnum sem sendur var á fjölmiðla. Í hópnum eru Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri, Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnar, og Eyþór Harðarson, bæjarfulltrúi.

„Það kemur auðvitað óþægilega við okkur öll þegar þær aðstæður skapast að flytja þurfi bæinn okkar á hættustig, en því fylgir reyndar líka ákveðið öryggi. Það þýðir að almannavarnayfirvöld fylgjast mjög náið með stöðu mála og viðbragðsáætlanir verða til samræmis við þær aðstæður sem upp kunna að koma. Bestu sérfræðingar hérlendis og erlendis eru komnir að málinu til að tryggja að vatnið haldi áfram að streyma til Eyja,“ segir í tilkynningunni.

Leiðslan sé að skila fullu vatnsmagni en hún sé hins vegar verulega skemmd. Því beri þeim að vera búin undir allar sviðsmyndir sem gætu komið upp. 

„Bæjarbúar verða að sjálfsögðu upplýstir samstundis ef breyting verður á þessari stöðu og ef þeir þurfa að grípa til einhverra ráðstafana, en svo er ekki á þessu stigi,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir

Lýsa yfir hættustigi vegna skemmda á vatnslögn

Ríkislögreglustjóri hefur ákveðið að lýsa yfir hættustigi Almannavarna vegna skemmda á neysluvatnslögn til Vestmannaeyja. Þetta hefur verið gert í samráði við Lögreglustjórann í Vestmannaeyjum og kemur fram í tilkynningu að skemmdirnar séu umfangsmiklar og alvarlegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×