Erlent

Segja sam­komu­lagið ekki munu taka gildi fyrr en á morgun

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Íbúar Gasaborgar freista þess að flýja suður eftir undan loftárásum Ísraelsmanna.
Íbúar Gasaborgar freista þess að flýja suður eftir undan loftárásum Ísraelsmanna. AP/Victor R. Caivano

Samkomulag um hlé á átökum á Gasa gegn lausn gísla mun ekki taka gildi fyrr en í fyrsta lagi á morgun, segja embættismenn í Ísrael og Bandaríkjunum. 

Þeir segja viðræður um lausn gíslana standa yfir en hún muni ekki koma til framkvæmdar fyrir en í fyrsta lagi á morgun. Þá hafa miðlar í Ísrael haft eftir ónefndum heimildum að sama gildi um hlé á átökum.

Áður hefur komið fram að gíslarnir 240 eru ekki allir í haldi Hamas, heldur hjá hinum ýmsu vopnuðu hópum. Þá virðast þeir vera nokkuð dreifðir og menn hafa gert því skóna að það gæti reynst Hamas erfitt að koma þeim til Ísrael.

Adrienne Watson, einn talsmanna Hvíta hússins, sagði að enn væri unnið að því að finna út úr framkvæmdinni. Menn væru hins vegar vongóðir um að samkomulagið gæti tekið gildi í fyrramálið.

Samkomulagið kveður á um að Ísraelsmenn sleppi palestínskum börnum og konum úr fangelsum í landinu og heimili aukna mannúðaraðstoð á Gasa, meðal annars aðflutning eldsneytis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×