Fótbolti

Stór á­fangi hjá San Marinó: Búnir að skora í þremur leikjum í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Filippo Berardi skoraði mark San Marinó gegn FInnlandi í gær. Markið var sögulegt.
Filippo Berardi skoraði mark San Marinó gegn FInnlandi í gær. Markið var sögulegt. getty/Gianluca Ricci

Þrátt fyrir að San Marinó hafi enn og aftur ekki tekist að vinna leik var undankeppni EM 2024 eftirminnileg fyrir smáríkið.

San Marinó tapaði fyrir Finnlandi í lokaleik sínum í undankeppninni í gær, 1-2. Íslandsvinurinn Pyry Soiri skoraði bæði mörk Finna en Filippo Berardi gerði mark San Marinó-manna úr vítaspyrnu í uppbótartíma.

San Marinó náði þar með að skora í þremur keppnisleikjum í röð í fyrsta sinn í fótboltasögu sinni.

Mikla athygli vakti þegar San Marinó skoraði gegn Danmörku á Parken í síðasta mánuði. Alessandro Golinucci jafnaði þá í 1-1 en Yussuf Poulsen tryggði Dönum sigurinn.

San Marinó skoraði aftur í 3-1 tapi fyrir Kasakstan á föstudaginn og það var þá í fyrsta sinn í átján ár sem liðið skorar í tveimur keppnisleikjum í röð.

San Marinó-menn skoruðu svo í þriðja keppnisleiknum í röð í gær. Og venju samkvæmt ríkti mikil gleði á þeirra stórskemmtilega stuðningsmannaaðgangi á Twitter.

San Marinó er í neðsta sæti styrkleikalista FIFA. Liðið hefur aðeins unnið einn leik í sögu sinni; gegn Liechtenstein í vináttulandsleik 2004. 

San Marinó-menn hafa tapað 85 af 86 leikjum sínum í undankeppni EM. Eina undantekningin er markalaust jafntefli við Eistlendinga 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×