Fótbolti

Bruno sér hættuna við lið Ís­lands sem hefur að engu að keppa

Aron Guðmundsson skrifar
Bruno Fernandes í baráttunni við Arnór Ingva á Laugardalsvelli í sumar
Bruno Fernandes í baráttunni við Arnór Ingva á Laugardalsvelli í sumar Vísir/Hulda Margrét

Bruno Fernandes, leik­maður Manchester United og portúgalska lands­liðsins, segist eiga von á erfiðum leik við Ís­land líkt og hann og liðs­fé­lagar hans upp­lifðu í Reykja­vík fyrr á árinu. Leikurinn verði góð próf­raun fyrir Portúgal sem hefur unnið alla sína leik í undan­keppni EM til þessa.

Aron Guðmundsson skrifar frá Lissabon.

Ís­land mætir Portúgal á José Al­vala­de leik­vanginum í Lisabon í kvöld í loka­um­ferð undan­keppni EM 2024.

Portúgal hefur verið ó­stöðvandi til þessa í undan­keppninni. Unnið alla níu leiki sína, skorað 34 mörk og að­eins fengið á sig tvö. Liðið hefur fyrir löngu tryggt sér þátt­töku­rétt á EM 2024 í Þýska­landi á næsta ári.

Á meðan er Ís­land úr bar­áttunni um EM sæti í gegnum þessa undan­keppni en Bruno tekur engu sem gefnu í viður­eign liðanna í kvöld.

„Ég býst við erfiðum leik,“ segir Bruno í sam­tali við Vísi. „Fyrri leikur okkar á Ís­landi var mjög erfiður. Þetta er líkam­lega sterkt lið sem spilar af miklum á­kafa og er öflugt í seinni boltunum. Ís­land spilar bein­skeyttan fót­bolta en einnig gæði til að spila boltanum sín á milli. Í liði Ís­lands eru frá­bærir leik­menn og við búumst við erfiðum leik eins á Ís­landi.“

Á blaða­manna­fundi portúgalska lands­liðsins í gær var ljóst að yfir­lýst mark­mið liðsins fyrir leik kvöldsins væri að sjá til þess að undan­keppnin færi á þann veg að liðið stæði uppi með tíu sigra í tíu leikjum.

Er það ykkur mikil­vægt að sjá tl þess að svo verði?

„Auð­vitað viljum við halda þessari sigur­göngu á­fram, halda skrið­þunganum okkar megin. Sigrar færa okkur meira sjálfs­traust til lengri tíma litið. Leikurinn gegn Ís­landi verður góð próf­raun fyrir okkur. Ís­land getur ekki komist upp úr riðlinum lengur en getur þá leyft sér að spila af meira frjáls­ræði. Við erum komnir á­fram en það breytir því ekki að fram­undan er erfiður leikur.“

Klippa: Bruno Fernandes: Í liði Ís­lands eru frá­bærir leik­menn

Leikur Portúgal og Íslands í undankeppni EM 2024 verður sýndur í beinni útsendingu og opinni dagskrá á Stöð 2 Sport og hefst upphitun klukkan 19:10. Leikar hefjast svo korter í átta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×