Fótbolti

Rapinoe: Þetta sannar það að guð er ekki til

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Megan Rapinoe situr á grasinu. Sex mínútur liðnar af úrslitaleiknum og hún búin að slíta hásin.
Megan Rapinoe situr á grasinu. Sex mínútur liðnar af úrslitaleiknum og hún búin að slíta hásin. Getty/Meg Oliphant

Bandaríska fótboltakonan Megan Rapinoe átti möguleika á því að enda stórkostlegan feril sinn á besta mögulega hátt eða með því að vinna titil í lokaleik ferilsins. Í stað þess upplifði hún sannkallaða martröð.

Rapinoe sleit hásin eftir aðeins sex mínútur í úrslitaleik OL Reign og Gotham FC um bandaríska meistaratitilinn. OL Reign tapaði síðan leiknum án Rapinoe.

Megan Rapinoe gerði sér strax grein fyrir því að hásin væri slitin. EPA-EFE/CAROLINE BREHMAN

Rapinoe fór mikinn á blaðamannafundi eftir leikinn og hún talaði þar meðal annars um það hún ætlaði að koma sér í Aaron Rodgers meðferðina. NFL stjarnan hefur átt ótrúlega endurkomu eftir að hafa slitið hásin í byrjun september. Rapinoe ætlar að heyra í Rodgers og fá að vita hver framkvæmdi aðgerðina á honum.

Það var þó ekki þau ummæli sem vöktu mesta athygli heldur en önnur enn bitastæðari.

„Ég á þetta ekki skilið. Ég get alla vega sagt það. Ég er ekki trúuð manneskja eða þannig en ef það væri til guð þá sannar þetta það að guð er ekki til,“ sagði Megan Rapinoe.

„Þetta er út í hött. Þetta er algjörlega fáránlegt. Sex mínútur liðnar af leiknum og ég slít hásina mína,“ sagði Rapinoe.

Rapinoe vissi strax hvað hefði gerst og átti mjög erfitt með sig þegar henni var hjálpað af velli enda vonbrigðin gríðarleg.

„Allir segja alltaf: Hver sparkaði í mig? Auðvitað var enginn nálægt mér. Þannig leið mér. Það kom mikill smellur og ég veit ekki einu sinni hvar hásinin mín er. Ég er nokkuð viss um að ég hafi slitið hásinina. Þetta var versta mögulega útkoman fyrir mig,“ sagði Rapinoe.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×