Innlent

Hætti að mæta í skólann eftir ör­laga­ríkt rautt spjald

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Áslaug Munda settist upp í stúlku eftir að henni var vikið af velli en þar voru foreldrar hennar.
Áslaug Munda settist upp í stúlku eftir að henni var vikið af velli en þar voru foreldrar hennar. Vísir/Vilhelm

Áslaugu Mundu Gunnlaugsdóttur leið ömurlega eftir að hafa fengið rautt spjald í leik Íslands og Portúgals í umspili um sæti á HM. Hún hætti að mæta í skólann og kenndi sjálfri sér um hvernig fór. Hún segir athyglina sem fylgir því að spila með landsliði geta tekið á.

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir hefur stundað fótbolta frá unga aldri. Hún spilar nú með liði Harvard háskólans í Bandaríkjunum þar sem hún stundar nám í taugavísindum. Það var ekkert sérstaklega á dagskránni hjá henni að fara út í nám en þegar þjálfarar liðsins í Harvard höfðu samband fannst henni erfitt að hafna þeim.

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir spilar í dag með liði Harvard þar sem hún stundar háskólanám í taugavísindum.

Áslaug þótti fljótt efnilega og var aðeins fjórtán ára þegar hún spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik með Völsungi. Áslaug ræddi meðal annars í þættinum Hliðarlínunni sem var á Stöð 2 og Stöð 2 Sport um erfiðar hliðar þessa að spila ungur með meistaraflokki og ná árangri.

Sjá má viðtal við Áslaugu Mundu hér í spilaranum að ofan. Þáttinn í heild er hægt að sjá á Stöð 2+.

„Ég var mjög lágvaxin og grönn. Létt á mér. Það hefur alltaf verið mjög auðvelt að ýta mér. Það var mjög gaman. Það var erfitt en við í rauninni vorum að halda aðeins aftur af þannig að ég fékk ekki meira en hálfleik í meistaraflokki.“

Áslaug Munda var aðeins fjórtán ára þegar hún spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik með Völsungi.

Þá á Áslaug fjölda unglingalandsleiki að baki.

„Ég fæ það tækifæri að spila með yngri landsliðum bara frá því að ég var í Völsungi og ég spila bara upp öll yngri landsliðin og fæ traustið hjá Jóni Þóri. Hann gefur mér tækifæri í A-landsliðinu þegar ég er nýorðin átján og það er mjög stórt skref. Ég kem þarna inn og allt í einu ertu að æfa með fyrirmyndunum þínum.“

Spilaði á EM sumarið 2022

Hún spilaði með landsliðinu á EM sumarið 2022 en tæpu ári áður hafði hún fengið höfuðhögg í leik. Þá hafði hún líka verið að glíma við hjartavandamál í aðdraganda mótsins.

„Ég er til dæmis valin á EM og ég er þá búin ganga í gegnum höfuðhöggin og er bara nýkomin til baka einhvern vegin þegar ég er valin á EM. Er samt ekki komin til baka. Mér líður enn þá bara fimmtíu prósent af því sem ég get verið og mér finnst það svo ósanngjarnt.“

Henni fannst hún ekki eiga heima í hópnum sökum veikindanna og langaði að stíga út úr honum svo aðrar fengju tækifæri. Mótið hafi því reynt á.

„En það er gott fólk þarna í kring. Ég spilaði hvað mest í Frakklandsleiknum sem er síðasti leikurinn og næ alveg að komast í gegnum hann.“

Áslaug flutti frá Húsavík 16 ára í bæinn til að spila með Breiðabliki.Vísir/Vilhelm

Fljótlega eftir mótið fór henni að líða betur.

„Eftir það stórmót byrjaði ég síðan að finna réttu lyfin sem að hjálpa hjartanu og hef þá fengið traustið aftur. Mitt innra traust en mjög svekkjandi hvernig HM fór.“

Þarna vísar Áslaug Munda til leiks Íslands og Portúgals í október 2022 þegar fram fór umspil um sæti á HM 2023.

Portúgal fékk vítaspyrnu í leiknum og Áslaug Munda dæmt á sig beint rautt spjald. Ísland tapaði leiknum 4-1.

„Við komumst ekki áfram. Ég fer síðan beint út og bara mjög þung á mér. Mér líður bara alveg ömurlega. Ég er bara hætt að mæta í tíma í skólanum. Ég bara tek þetta allt inn á mig. Þetta er algjörlega mér að kenna, ef ég hefði ekki fengið þetta rauða spjald þá hefði kannski leikurinn farið öðruvísi,“ segir Áslaug Munda.

„Ísland hefði getað farið á HM í fyrsta sinn kvennamegin. Allar stelpurnar eru búnar að vinna svo hart að þessu og síðan kem ég einhvern veginn einhver gutti. Fæ rautt spjald út af. Við töpum fjögur eitt og bara draumurinn búinn. Sú önn var þá líka erfið. Það er ekki verið að halda aftur af mér út af höfðinu eða svoleiðis. Ég bara næ mér ekki upp úr því að ég hafi fengið þetta rauða spjald.“

Áslaug Munda, sem var rúmlega tvítug þegar hún spilaði leikinn, kenndi sér um hvernig fór og átti erfitt með að hætta að hugsa um mistökin. Vísir/Vilhelm

Hún hafi þó strax fundið fyrir miklum stuðningi frá liðsfélögum sínum og þjálfara.

„Það kenndi enginn mér um þetta nema ég sjálf.“

Eftir að hún fékk rauða spjaldið settist hún upp í stúku þar sem foreldrar hennar voru.

„Mamma og pabbi voru líka í stúkunni þannig ég fór upp og sat með þeim. Síðan fékk ég alveg þó nokkur skilaboð og meira að segja Guðni Th. forseti sendi á mig. Það sem hjálpaði mér var að ég vissi að þjóðin stæði við bakið á mér. Eins langt og ég fór niður þá hjálpuðu mér allir upp,“ segir Áslaug Munda. 

„Ég held að þetta sé líka bara í rauninni gallinn við að vera undir svona stóru ljósi eins og með landsliðinu. Ef þú gerir mistök þá eru svo margfalt meiri heldur en ef ég myndi gera þau hérna hjá Breiðabliki. Ég tek það svo mikið á mig og ég held að allir geri það.“

Áslaug Munda upplifði eftir veikindi að hún væri loks á góðum stað þegar hún spilaði leikinn gegn Portúgal. Hún segir stuðning liðsfélaganna hafa verið mikinn eftir leikinn.Vísir/Vilhelm

Tengdar fréttir

Leggur til sektir fyrir slæma hegðun foreldra

Jón Gunnlaugur Viggósson, fyrrverandi handknattleiksmaður og yfirþjálfari hæfileikamótunar Handknattleikssambands Íslands, leggur til að íþróttafélög verði sektuð fyrir slæma hegðun foreldra á íþróttaleikjum barna sinna.

Börn ekki til­búin til að spila með meistara­flokkum

Engar reglur gilda hjá ÍSÍ um hvenær börn mega spila með meistaraflokkum íþróttafélaga en allt niður í ellefu ára börn hafa spilað með meistaraflokkum. Íþróttafræðingur segir þetta varhugavert

„Við það að deyja því að maður ætlaði að halda sér í formi“

Stúlka sem var í níu mánuði í meðferð á spítala vegna átröskunar segir sorglegt að hugsa til þess að hún hafi verið í lífshættu af því hún var að reyna að halda sér í formi fyrir fótboltann. Átröskunartilfellum hjá börnum fjölgaði í kórónuveirufaraldrinum.

„Ég brýt á mér átta fingur af tíu“

Kona sem tók verkjalyf daglega þegar hún var barn til að geta stundað fimleika fékk magasár af verkjalyfjanotkun. Ekkert kemur í veg fyrir að börn geti sjálf keypt sér verkjalyf í apótekum. 

„Ég var ekkert á svakalega góðum stað andlega á þessum tíma“

Atvinnumaðurinn Óttar Magnús Karlsson þurfti þegar hann var nítján ára að spila með Molde í Noregi að fara heim til Íslands til að leita sér aðstoðar vegna þunglyndis. Hann segir margt geta komið upp á þegar ungt fólk er að reyna að fóta sig í íþróttaheiminum í útlöndum.

Himinn og haf á milli hegðunar íslenskra foreldra og sænskra

Íslenskur þjálfari segir tvennt ólíkt að fylgjast með foreldrahegðun á fótboltamótum á Íslandi og í Svíþjóð. Sænsku foreldrarnir hegði sér töluvert betur á hliðarlínunni en þar í landi séu upplýsingaskilti við hvern einasta völl þar sem minnt er á hvað sé æskileg hegðun þegar börn keppa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×