Fótbolti

Vallar­stjórinn vill blöndu af gervi- og al­vöru grasi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kristinn V. Jóhannsson, vallarstjóri Laugardalsvallar, hefur í nægu að snúast þessa dagana.
Kristinn V. Jóhannsson, vallarstjóri Laugardalsvallar, hefur í nægu að snúast þessa dagana. Vísir/Einar

Kristinn V. Jóhannsson, vallarstjóri Laugardalsvallar segist vel geta haldið vellinum leikfærum tíu mánuði á ári, en til þess þurfi hann réttan aðbúnað.

Kristinn stendur í ströngu um þessar mundir. Blikar spiluðu á Laugardalsvelli á fimmtudaginn í 3-2 tapi gegn Gent í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Fyrir leikinn var pulsan þekkta sett upp á Laugardalsvelli og var því hægt að spila á vellinum.

Næsti heimaleikur Blika í keppninni er 30.nóvember og þá þarf einnig að huga að því að gera völlinn leikfæran, sem gæti reynst erfitt fyrir starfsfólk vallarins. Völlurinn er ekki upphitaður og er það ákveðið vandamál

„Ég myndi vilja hafa vel uppbygðan hybrid-völl með undirhita ásamt tækjum og tólum til að viðhalda honum tíu mánuði ári. Bara með að hafa undirhita í dag hefðum við komist hjá því að vera með þennan dúk og öllum þeim kostnaði sem fylgir honum,“ sagði Kristinn aðspurður hvað hann þyrfti til að geta verið með leikfæran völl í 10 mánuði á ári.

„Það er oftast þannig að hybrid-gras er þrjú til fimm prósent gervigras á móti náttúrulegu. Svo eru margar týpur, hvernig þú kemur þessu ofan í grasið og hvort þetta sé komi í rúllum eða sé sáð, það eru margar aðferðir. Oftast er reglan að því meira gervigras því harðari er völlurinn. Því betra að halda sig við þrjú til fimm prósent.“

Gæti Kristinn haldið þannig velli í lagi tíu mánuði á ári?

„“Já, ég sé ekki að neitt gæti klikkað þar,“ sagði Kristinn að endingu. 

Innslag Sportpakka Stöðvar 2 má sjá í heild sinni hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×