Innlent

Kefl­víkingar gera allt til að auð­velda líf ná­granna sinna

Bjarki Sigurðsson skrifar
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar. Vísir/Egill

Unnið er að því að opna fjöldahjálparstöð fyrir Grindvíkinga í íþróttahúsinu við Sunnubraut í Reykjanesbæ. Bæjarstjórinn segir bæinn gera allt til að auðvelda líf nágranna sinna. 

Þrátt fyrir að skjálftarnir á Reykjanesi finnist best í Grindavík, enda eru upptök þeirra þar rétt hjá, hafa nágrannarnir í Keflavík einnig fundið vel fyrir þeim í dag. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir íbúa þar þó ekki vera farna að flýja heimili sín líkt og Grindvíkingar. 

„Ekkert út af þessari skjálftahrinu, ég veit að það er eitthvað af fólki í sumarbústað fyrir austan og í Borgarfirði, hafa farið fyrir helgina. En þetta er búið að vera alveg sérstaklega mikið núna seinni partinn í dag. Það má vel vera að einhverjir séu farnir en mér er ekki kunnugt um það,“ segir Kjartan.

Hann hefur aldrei fundið jafn mikla skjálfta áður. 

„Þetta er meira heldur en ég hef nokkurn tímann fundið áður, þetta eru mestu jarðskjálftar sem ég hef fundið og ég er 62 ára sko,“ segir Kjartan. 

Hann segir Rauða krossinn vinna að því að opna fjöldahjálparstöð í íþróttahúsi bæjarins við Sunnubraut. 

„Við munum gera allt sem við getum til að auðvelda þeim lífið,“ segir Kjartan.

Fleiri fjöldahjálparmiðstöðvar verða opnaðar næstu tímana, meðal annars í íþróttahúsinu í Grindavík, Vallarskóla á Selfossi, og í Kórnum í Kópavogi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×