Fótbolti

Klopp eins og þrumu­ský á blaða­manna­fundi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jürgen Klopp var ekki sáttur við hvar blaðamannafundurinn eftir leikinn gegn Toulouse var haldinn.
Jürgen Klopp var ekki sáttur við hvar blaðamannafundurinn eftir leikinn gegn Toulouse var haldinn.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var ekki beint í góðu skapi eftir leikinn gegn Toulouse í Evrópudeildinni í gær. Ekki nóg með að Liverpool tapaði leiknum heldur þurfti Klopp að svara spurningum blaðamanna undir fagnaðarlátum stuðningsmanna Toulouse.

Liverpool laut í lægra haldi fyrir Toulouse, 3-2, á útivelli í E-riðli Evrópudeildarinnar í gær. Með sigri hefði Rauði herinn tryggt sér sæti í útsláttarkeppninni.

Eftir leikinn var blaðamannafundur Liverpool haldinn í einhvers konar tjaldi. Þar heyrðist vel í stuðningsmönnum Toulouse sem fögnuðu sigrinum á hæsta styrk svo það heyrðist varla í Klopp sem var hinn pirraðasti.

„Hverjum datt í hug að halda blaðamannafund hér? Það er mjög áhugaverð spurning. Vá,“ sagði Þjóðverjinn sem horfði í kringum sig í smá stund áður en hann svaraði næstu spurningu.

Liverpool lenti tvisvar tveimur mörkum undir í leiknum í Toulouse í gær. En Diogo Jota kveikti vonarneista hjá gestunum þegar hann minnkaði muninn á 89. mínútu. Þegar átta mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma skoraði Jarell Quansah þriðja mark Liverpool en það var dæmt af vegna hendi á Alexis Mac Allister.

Liverpool er enn á toppi E-riðils með níu stig en Toulouse er í 2. sætinu með sjö stig.

Næsti leikur Liverpool, og sá síðasti fyrir landsleikjahlé, er gegn Brentford í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×