Erlent

Íranir hvetja múslímaríkin til að setja þrýsting á Banda­ríkin og Ísrael

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Í skilaboðunum er sérstaklega talað um að Írak sé í stöðu til að hafa áhrif.
Í skilaboðunum er sérstaklega talað um að Írak sé í stöðu til að hafa áhrif. Getty/NurPhoto/Morteza Nikoubazl

„Múslimaheimurinn verður að auka pólitískan þrýsting á Bandaríkin og stjórnvöld Zíonista til að binda enda á fjöldamorðið á Gasa,“ segir í yfirlýsingu sem birt var á samfélagsmiðlasíðu Ayatollah Ali Khamenei, leiðtoga Íran, nú í morgun.

Í skilaboðunum segir meðal annars að Írak sé mikilvægt ríki á svæðinu og geti sem slíkt gengt lykilhlutverki í að þrýsta á Bandaríkin og „hernámsstjórnina“ um að stöðva blóðbaðið á Gasa og breyta nálgun sinni gagnvart Arabaríkjunum.

„Bandaríkin eru vitorðsmaður Zíonistana í glæpum þeirra gegn Gasa. Án vopna og pólitísks stuðnings munu stjórnvöld Zíonista ekki geta haldið áfram,“ segir í skilaboðunum.

Þá segir að því lengur sem stríðið standi yfir því augljósari verði hlutdeild Bandaríkjamanna.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur verið á ferð um nágrannaríki Ísrael og Palestínu síðustu daga, bæði til að freista þess að forða því að yfirstandandi átök breiðist út og til að tala fyrir mannúðarhléi.

Ísraelsmenn sæta auknum þrýstingi um að láta af hernaði sínum á Gasa en þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir til fólks um að flýja suður þar sem hernaðaraðgerðir standi yfir í norðurhlutanum, eru enn gerðar árásir á suðurhlutann.

Forsvarsmenn margra helstu stofnana Sameinuðu þjóðanna sendu frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem kallað var eftir tafaralausu vopnahlé af mannúðarástæðum. Þá birtu samtökin færslu á X/Twitter í morgun þar sem greint var frá því að eitt barn létist og tvö særðust á tíu mínútna fresti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×