Innlent

Með á­ætlanir gjósi í Svarts­engi

Bjarki Sigurðsson skrifar
Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, segist treysta almannavörnum og Veðurstofu Íslands.
Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, segist treysta almannavörnum og Veðurstofu Íslands. Vísir/Sigurjón

Kvikusöfnun heldur áfram nærri Svartsengi og Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, segir fyrirtækið með viðbragðsáætlun komi til eldgoss. Stjórnendur funduðu með almannavörnum í dag. 

„Auðvitað er ekkert sveitarfélag með varahitaveitu en við höfum okkar viðbragðsáætlanir og munum reyna að koma á kaldavatnsflæði annars staðar frá og reyna að hita upp vatn annars staðar en það er ekkert lítið mál að koma því í kring. Við erum vel tengd, við erum með Reykjanesvirkjun hvað varðar rafmagn en hitaveitan er hér í Svartsengi. Það er ekkert auðvelt mál að ræsa nýja hitaveitu en það tæki sinn tíma,“ segir Tómas.

Stjórnendur HS Orku hafa fundað með almannavörnum í dag. Tómas segist treysta þeim sem starfa þar og hjá Veðurstofunni.

„Eins og þetta er núna eru ekki miklar líkur að þetta komi beint undir okkur,“ segir Tómas um hitaveituna í Svartengi.Vísir/Sigurjón

„Fyrst og fremst höfum góða kortlagningu á jarðfræði svæðisins og bestu jarðfræðingar eru að rýna í þetta. Sprungukerfið, þeir hafa verið mjög nákvæmir um hvar kvika getur komið upp. Eins og þetta er núna eru ekki miklar líkur að þetta komi beint undir okkur en mögulega nálægt. Þá ættum við að vita það snemma og geta gert einhverjar ráðstafanir,“ segir Tómas.

Hann segir að detti Suðurnesjalína eitt út verði enn hægt að þjónusta svæðið.

„Þá getum við enn rekið kerfið frá Svartsengi og á Reykjanesi og í gegnum Fitjar. Rafmagnið gæti vissulega dottið út um tíma en við ættum að geta komið því á og þjónustað svæðið,“ segir Tómas. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×