Sport

Marg­faldur meistari nýr yfir­þjálfari Mjölnis

Aron Guðmundsson skrifar
Beka er nýr yfirþjálfari hnefaleika hjá Mjölni. Beka er frá Georgíu og hefur þar í landi unnið fjöldamarga titla í hnefaleikum
Beka er nýr yfirþjálfari hnefaleika hjá Mjölni. Beka er frá Georgíu og hefur þar í landi unnið fjöldamarga titla í hnefaleikum Mynd: Mjölnir

Beka Daneli­a, marg­faldur georgískur meistari í hnefa­leikum, hefur verið ráðinn nýr yfir­þjálfari hnefa­leika hjá Mjölni.

Þetta kemur fram í frétta­til­kynningu frá Mjölni en Beka er senni­lega einn reynslu­mesti hnefa­leika­maður landsins. Hann hefur æft hnefa­leika frá barns­aldri og á að baki á fimmta tug bar­daga á sínum ferli.

Auk þess hefur hann unnið fjölda titla í heima­landi sínu, Georgíu. Þar á meðal hefur hann í tví­gang orðið georgískur meistari sem og bikar­meistari en hnefa­leikar eiga sér langa og ríka sögu í Georgíu.

Þá hefur Beka bæði æft og keppt víða er­lendis. Meðal annars var hann valinn til þátt­töku í æfinga­búðum með heims­liðinu svo­kallaða þar sem að hann æfði undir hand­leiðslu heimsklassa þjálfara.

Beka tekur við sem yfir­þjálfari hnefa­leika í Mjölni og Æsi af Vil­hjálmi Hernandez sem hefur flutt er­lendis.

Vil­hjálmur mun þó, eftir því sem fram kemur í frétta­til­kynningu frá Mjölni, ekki segja skilið við hnefa­leika á Ís­landi. Hann verður á­fram stjórnar­maður í Æsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×