Upp­gjörið: Þór - Valur 86-92 | Sterkur sigur sóttur í fyrsta leik

Árni Gísli Magnússon skrifar
Valur sótti sigur norðan heiða og leiðir einvígið.
Valur sótti sigur norðan heiða og leiðir einvígið.

Valur leiðir 1-0 í einvígi sínu gegn Þór Akureyri í 8-liða úrslitum Bónus deildar kvenna eftir 86-92 sigur fyrir norðan í fyrsta leik liðanna og hirti þar með heimavallarréttinn. Vinna þarf þrjá leiki til að komast í undanúrslit.

Þór var án tveggja lykilmanna; Esther Fokke og Nataliu Lalic og því ljóst að verkefnið var orðið töluvert þyngra en ella fyrir annars fámennt Þórslið.

Leikurinn fór fjörlega af stað en liðin spiluðu hraðan bolta og skiptust á stigum en það voru heimakonur sem skoruðu síðustu sex stig leikhlutans, allt af vítalínunni, og leiddu með 4 stigum, 28-24.

Áfram var jafnfræði með liðunum í öðrum leikhluta og bætti Þórsliðið sig mikið í fráköstum sem fóru langmest Valsmegin í fyrsta leikhluta. Eva Wiium og Amandine Justine voru atkvæðamiklar og enduðu hálfleikinn með 16 og 15 stig. Hjá Val mæddi mikið á Alyssu Marie sem skoraði 14 stig.

Þórsstelpur leiddu með fimm stigum að loknum fyrri hálfleik eftir að hafa skorað síðustu tvö stig hálfleiksins. Staðan 49-44.

Fyrstu sex mínútur leiksins var algjör martröð fyrir heimakonur en Valur náði 16-2 áhlaupi og staðan skyndilega orðin 51-60 gestunum í vil. Þórsarar eru þó ekki þekktir fyrir að gefast upp og náðu að minnka muninn í þrjú stig áður en leikhlutinn var allur og staðan 66-69 fyrir loka fjórðunginn.

Aftur gerðu heimakonur sér erfitt fyrir með því að byrja leikhlutann illa og voru gestirnir 11 stigum yfir 72-83, þegar rúmar 5 mínútur lifðu leiks og leit allt út fyrir þær myndu sigla sigrinum örugglega heim. Þórsarar voru þó ekki sammála og náðu öðru áhlaupi sem var kraftmikið og þegar 1 mínúta og 12 sekúndur voru eftir var staðan 86-87 fyrir Val og Þór með boltann. Lokamínútan fór þó ekki vel hjá heimakonum sem klikkuðu á sínum skotum á meðan gestirnir refsuðu og lokatölur 86-92 fyrir Val.

Atvik leiksins

Þór gat komist yfir þegar 45 sekúndur lifðu leiks og staðan 86-87 fyrir Val, en Amandine Justine klikkaði á erfiðu tveggja stiga skoti og Valskonur fóru upp völlinn og kláruðu leikinn í næstu tveimur sóknum. Ef skotið hefði farið rétta leið hjá Amandine væri staðan mögulega önnur í einvíginu, en það er alltaf þetta ef og hefði.

Stjörnur og skúrkar

Alyssa Marie átti frábæran leik hjá Val og skoraði 30 stig og var með 8 fráköst. Leikur Vals snýst algjörlega í kringum hana.

Dagbjört Dögg var næst með 16 stig en Sara Líf og Ásta Júlía áttu einnig góðan leik og hirtu urmul af fráköstum.

Hjá Þór mæddi mikið á Evu Wiium í fjarveru Esther Fokke og Nataliu Lalic en hún skoraði 26 stig og barðist eins og ljón allan tímann og fór fyrir sínu liði eins og leiðtogi.

Amandine Justine átti góðan leik og endaði með 25 stig.

Maddie Sutton átti heil 17 fráköst ásamt 15 stigum og spilaði vel.

Dómarar

Áttu fínan leik framan að en fannst þeir aðeins missa tökin í síðari hálfleik þegar mikið var undir og dæma sóknarliðinu í hag í öllum vafaatriðum.

Umgjörð og stemning

Umgjörðin til fyrirmyndar og nokkuð vel mætt í Höllina.

Grillaðir hamborgarar fyrir leik ásamt afþreyingu þar sem m.a. var búið að setja upp píluspjald. Þá mætti Tinna Óðinsdóttir, Akureyringur sem tók þátt í undankeppni Eurovision, og tók nokkur lög í hálfleik fyrir lýðinn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira