Fótbolti

Gylfi Þór marka­hæstur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson þrumaði boltanum í netið.
Gylfi Þór Sigurðsson þrumaði boltanum í netið. Vísir/Hulda Margrét

Gylfi Þór Sigurðsson er orðinn markahæsti leikmaður í sögu íslenska karlalandsliðsins. 

Gylfi Þór sneri aftur í byrjunarlið Íslands í kvöld þegar liðið tók á móti Liechtenstein í undankeppni EM 2024. Um er að ræða 80. landsleik Gylfa Þórs en hann hafði ekki byrjað leik með landsliðinu síðan 15. nóvember 2020.

Gylfi Þór hafði fyrir leik kvöldsins skorað 25 mörk og því var ljóst að hann gæti jafnað markametið og bætt það færi svo að hann myndi skora tvö mörk.

Gylfi Þór skoraði fyrsta mark kvöldsins úr vítaspyrnu sem var dæmd þegar varnarmaður gestanna hindraði fyrirgjöf hans með hendinni. 

Gylfi Þór fór sjálfur á punktinn og kom Íslandi 1-0 yfir. Í sömu andrá þá jafnaði hann markamet íslenska karlalandsliðsins en fyrir höfðu þeir Kolbeinn Sigþórsson og Eiður Smári Guðjohnsen skorað 26 mörk.

Klippa: Gylfi jafnar markametið

Það var svo í upphafi síðari hálfleiks sem Gylfi Þór skoraði annað mark sitt í leiknum með góðu skoti innan úr vítateignum. Var það hans 27. mark í treyju íslenska landsliðsins og er Gylfi Þór orðinn markahæsti leikmaður Íslands frá upphafi. 

Klippa: Gylfi sá markahæsti frá upphafi

Þegar fréttin er skrifuð er staðan 3-0 Íslandi í vil og enn 40 mínútur eftir af leiknum.

Hér má sjá lista yfir öll mörk Gylfa Þórs fyrir A-landsliðið.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Byrjunarlið Íslands: Gylfi Þór snýr aftur í byrjunarliðið

Byrjunarlið Íslands fyrir leik kvöldsins gegn Liechtenstein í undankeppni EM karla í knattspyrnu sem fram fer í Þýskalandi næsta sumar er klárt. Gylfi Þór Sigurðsson kemur inn í byrjunarliðið eftir að hafa komið inn af bekknum í síðasta leik.

Í beinni: Ísland - Liechtenstein | Slær Gylfi metið?

Ísland og Liechtenstein mætast í undankeppni EM 2024 í knattspyrnu á Laugardalsvelli í kvöld. Síðast skoruðu íslensku strákarnir sjö mörk, hvað gera þeir í kvöld? Leikurinn hefst klukkan 18.45 og er sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun hefst 18.10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×