Innlent

Segir sveitar­fé­lög draga lappirnar vegna illa lagðra hlaupa­hjóla

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Erlendur vill að sveitarfélög standi sína plikt sem veghaldarar hjólreiðastíga.
Erlendur vill að sveitarfélög standi sína plikt sem veghaldarar hjólreiðastíga. Vísir

Hjól­reiða­að­gerðar­sinni segir illa lögð rafhlaupahjól á hjól­reiða­stígum höfuð­borgar­svæðisins vera orðin eitt helsta vanda­málið á stígunum. Hann segir alveg ljóst að sveitar­fé­lög beri á­byrgð á málinu, þó sum hver firri sig ábyrgð og segir þrjá mögu­leika til betr­um­bóta.

„Til þess að gera hjól­reiðar að að­laðandi kosti þá þarf ein­hverja inn­viði og svo þarf að reka þá inn­viði og það þarf að hafa stjórn á þeim og það eru þrír hlutir sem eru bara vanda­mál,“ segir Er­lendur S. Þor­steins­son, sem meðal annars er stjórnar­maður í Lands­sam­tökum hjól­reiða­manna, í sam­tali við Vísi.

Hann segir að það sé verk­takafúsk, vetrar­þjónusta og illa lögð raf­hlaupa­hjól. Hann segir hið síðast­nefnda vera orðið stærsta vandann. Er­lendur hefur meðal annars bent Kópa­vogs­bæ á skútu­vandann en bæjar­yfir­völd bent á raf­hlaupa­hjóla­leigurnar sjálfar, sem Er­lendur telur frá­leitt.

Velti því upp hvort and­stæðingar legðu rafhlaupahjólunum illa

Til­efni fréttarinnar er að Er­lendur stofnaði fyrir tveimur árum Face­book hópinn „Verst lagða rafs­kútan.“ Hópurinn er eins og nafnið gefur til kynna helgaður myndum af illa lögðum rafhlaupahjólum. Er­lendur sá sig knúinn til að bregðast við vanga­veltum Alexöndru Briem, borgar­full­trúa Pírata á Face­book hópnum „Sam­tök um bíl­lausan lífs­stíl.“

Alexandra lýsti því að hún hefði nýtt sér raf­magns­hlaupa­hjól á ferða­lagi sínu í Borgar­tún úr Ráð­húsinu. Hún segist hafa þurft að stoppa og færa fjögur slík raf­hlaupa­hjól sem ekki bara hafi verið lagt illa, heldur hafi verið líkt og þeim hafi verið stillt upp til að vera eins mikið fyrir og mögu­legt er.

„Ég er svona varla að kaupa það að not­endur skilji þau svona rosa­lega lé­lega eftir sig, bara þvert yfir gang­stéttina, horn­rétt. Getur verið að and­stæðingar raf­hlaupa­hjóla séu að færa þau til að gera fólk mót­fallnara þessum ferða­máta?“

Alexandra varð síðan að á­rétta mis­skilninginn, um að hún væri ekki raun­veru­lega að halda því fram að and­stæðingar raf­hlaupa­hjóla gerðu þetta. Hún hefði sagt þetta í hálf­kæringi til að undir­strika hversu full­kom­lega galinn frá­gangur á sumum þeirra virtist vera.

Alexandra trúði því ekki hvað hlaupahjólunum sem hún sá var lagt illa.Vísir/Vilhelm

Segir um að ræða mikinn vanda

Er­lendur segir að hann hafi séð sig knúinn til að þvo hendur sínar af málinu og því birti hann yfirlýsingu á Facebook vegna málsins. Um­mæli Alexöndru hafi komið sér spánskt fyrir sjónir. Ljóst sé að illa lögð raf­hlaupa­hjól séu raun­veru­legt vann­da­mál.

„Þetta er bar­áttu­mál hjá mér, sem tengist öðrum svipuðum bar­áttu­málum, um að Reykja­víkur­borg og Kópa­vogur líka, þeim gengur illa að hafa stjórn á á­gangi á hjól­reiða­stíga,“ segir Er­lendur.

„Það eru þrír hlutir sem eru vanda­mál. Það er að rafs­kútum er lagt á hjóla­stíga, verk­takar virða ekki hjóla­stíga, ég kalla það verk­takafúsk þar sem verk­takar gera hvað sem er, loka hjóla­stígunum eða skera þá í sundur og borginni í þessum tveimur til­vikum gengur rosa­lega illa að hafa stjórn á á­ganginum. Svo er það vetrar­þjónustan.“

Hjól­reiða­menn hjóli öðru­vísi en 2019

Er­lendur segir að illa lögð raf­hlaupa­hjól séu stærsta vanda­málið. Þær séu ekki í tak­markaðan tíma eins og vetrar­veður, heldur allt árið, allan sólar­hringinn.

„Glitið á þeim er hörmu­legt. Það er bara of­boðs­lega erfitt að sjá þær í myrkri og rigningu og þær eru út um allt. Þú getur ekki treyst því að þær séu á ein­hverjum á­kveðnum stað.“

Er­lendur nefnir sem dæmi að þennan sama morgun og við­talið var tekið hafi hann þurft að færa tvö raf­hlaupa­hjól sem hafi verið á miðjum hjól­reiða­stíg í Foss­vogs­dal. Hann segir að það sé nauð­syn­legt að færa þær.

„Það væru ekkert endi­lega þessar tvær skútur á þessum sama stað, heldur bara ein­hverjar aðrar tvær skútur á öðrum stað sem þýðir að það þarf að hjóla, sér­stak­lega í myrkri og rigningu, í mjög mikilli vörn. Maður þarf stöðugt að horfa bara rétt fyrir framan sig, til að vera viss um að það sé ekki eitt­hvað fyrir framan mann sem á ekki að vera þar.“

Hjólreiðastígum hefur fjölgað mikið á höfuðborgarsvæðinu undanfarin ár. Hér malbika menn einn slíkan við Öskjuhlíð árið 2020. Vísir/Vilhelm

Er­lendur segir að reynsla sín og annarra hjól­reiða­manna sé sú að það hafi verið hægt að hjóla á allt annan hátt á stígunum fyrir árið 2019, þegar raf­hlaupa­hjólin gerðu fyrst vart við sig á stígum landsins. Líkurnar í dag á að hjól­reiða­menn geti slasað sig séu orðnar þannig að þeir þurfi að í­huga hvernig þeir hjóla.

„Maður gat horft fram fyrir sig. Ljósið var að­eins stillt upp, maður horfði fram, gat kíkt eftir bíl­stjórum og eftir gangandi veg­far­endum. Núna er maður farinn að stilla ljósið alveg niður þannig að það sé beint fyrir framan dekkið og horfir bara beint fyrir framan sig, á bremsunum allan tímann ef það skyldi gerast eitt­hvað. Þá treysti ég á að bíl­stjórar séu með ljósin á bílunum og horfi í kringum sig og vona að gangandi veg­far­endur, ef maður er ekki á hjóla­stíg, sjái ljósið frá mér.“

Alveg ljóst að sveitar­fé­lögin beri á­byrgð

Er­lendur tekur fram að hann hafi átt í góðu sam­starf við Hopp vegna málsins. Þar á bæ hafi menn verið dug­legir að setja bann­svæði í kringum undir­göng til að mynda. Hann segist ekki hafa átt í svipuðum sam­skiptum við Zolo.

„En fyrst og fremst ætti þetta að koma frá sveitar­fé­lögum. Sveitar­fé­lög, sem veg­haldarar, sem á­byrgðar­aðilar þessa stíga, ættu náttúru­lega að vera með þessa vinnu með leigunum.“

Er­lendur ætlar að senda Reykja­víkur­borg og Kópa­vogs­bæ gagna­beiðni og biðja um samninga sem gerðir hafi verið við rafhlaupahjólaleigurnar. Hann segir þrennt í stöðunni til að koma böndum á á­standið á hjól­reiða­stígunum.

Erlendur segir að samtal verði átt við sveitarfélög um hvernig megi leysa vandann á hjólreiðastígum. Vísir/Vilhelm

„Í fyrsta lagi að halda á­fram með stöðva­lausar leigur. Þetta er rosa­lega flott kon­sept, of­boðs­lega þægi­legt og gott. Er hægt að halda á­fram með þetta en gera eitt­hvað til að laga hlutina? Til þess þurfa sveitar­fé­lögin að ná stjórn á stígunum, finna leiðir svo það sé ekki, innan ein­hverja marka, verk­takar, rafs­kútur eða annað rusl á stígunum,“ segir Er­lendur.

„Önnur hug­myndin er að breyta þessu í stöðva­leigur. Að krefjast þess að þú megir ekki skilja skútuna eftir hvar sem er. Þú verðir að skilja hana eftir í stæði og ef þú gerir það ekki haldi klukkan bara á­fram að tikk­a og þú borgar þar til þú skilar.“

Einn möguleiki að hætta með rafhlaupahjólin

Er­lendur segir að þriðja hug­myndin sé sú að hætta ein­fald­lega með slík raf­hlaupa­hjól í út­leigu hér á landi. Hann segir að sú hug­mynd sé sú sem síst hafi fallið í kramið.

„Ég hef fengið rosa­lega gagn­rýni fyrir að viðra þessa seinustu hug­mynd. En mér finnst undar­legt að mega ekki tala um það að það séu þrjár lausnir. Stöðvar­lausar leigur, stöðva­leigur eða ein­fald­lega að hætta þessu. Við þurfum ein­fald­lega að horfa á þessa þrjá mögu­leika og velta fyrir okkur: Hvað viljum við? Hvernig viljum við að hjól­reiðar á höfuð­borgar­svæðinu þróist? Eða yfir­leitt allar sam­göngur aðrar heldur en bara bíllinn.“

Er­lendur segir Lands­sam­tök hjól­reiða­manna munu biðja um sam­tal við sveitar­fé­lögin vegna málsins. Þar muni hjól­reiða­menn koma á­hyggjum sínum á fram­færi.

„Með það að mark­miði að allir þessir sam­göngu­mátar, venju­leg reið­hjól, raf­magns­reið­hjól, rafs­kútur og svo fram­vegis, að það verði hægt að nota þetta allt saman með öruggum hætti og ýta undir að sem fæstir þurfi að nota bílana sína, sem sjaldnast.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×