Innlent

Íbúum Snæfellsbæjar fjölgar smátt og smátt

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
 Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar á skrifstofunni sinni þar sem hann hefur meira en nóg að gera.
Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar á skrifstofunni sinni þar sem hann hefur meira en nóg að gera. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Íbúum Snæfellsbæjar er smátt og smátt að fjölga en vandamálið þar eins og svo víða í öðrum sveitarfélögum úti á landi er vöntun á húsnæði fyrir nýja íbúa. Þá hefur fjöldi ferðamanna í Snæfellsbæ sjaldan eða aldrei verið eins mikill og í sumar og haust.

Íbúar í Snæfellsbæ hafa síðustu ár verið um sautján hundruð en á þessu ári hefur þeim fjölgað um þrjátíu, sem er gleðiefni að sögn Kristins Jónassonar bæjarstjóra en það er þó eitt vandamál í stöðunni.

„Okkur vantar bara meira húsnæði fyrir fólk. Það er næg atvinna, okkur vantar ofboðslega mikið af fólki í öll störf en til þess að geta tekið á móti því þá þurfum við að byggja meira húsnæði, sem við höfum aðeins verið að gera núna en mætti vera meira. Hér er alltaf nóg að gera og hefur alltaf verið,“ segir Kristinn.

Ferðamennirnir eru út um allt á Snæfellsnesi. Hér eru ferðamenn til dæmis að fara í skoðunarferð í Vatnshellirinn, sem er í Purkhólahrauni sunnan við Snæfellsjökul.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Ferðaþjónusta í Snæfellsbæ blómstrar en Kristinn segist sjaldan eða aldrei hafa séð eins mikið af ferðamönnum í sveitarfélaginu eins og í sumar og í haust.

„Já, það er alltaf mikið af ferðamönnum í sveitarfélaginu og við höfum gert það með skipulögðum hætti að byggja upp áningarstaði á svæðinu þannig að við getum tekið á móti fólki þannig að sómi sé af,“ segir bæjarstjórinn og bætir við.

Það eru mikil umsvif í kringum Snæfellsjökuls þjóðgarð þegar ferðamenn eru annars vegar, íslenskir og erlendir.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Þjóðgarðurinn er náttúrulega rosalega öflugur og skiptir okkur miklu máli að hafa svona öflugan þjóðgarð og hann hefur verið að byggja upp innviðina líka. Þannig að sveitarfélagið og þjóðgarðurinn hefur verið að gera þetta til þess að geta tekið á móti. Við erum til dæmis líka sveitarfélagið með mjög flott tjaldsvæði þannig að við erum alltaf að reyna að bæta okkur á hverjum degi til að gera betur en við gerðum í gær,“ segir Kristinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×