Fótbolti

Kallar Ru­bi­a­les gungu og segir hann hafa skemmt sér með táningum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Luis Rubiales, forseti spænska knattspyrnusambandsins, hefur verið mikið í fréttum undanfarna daga.
Luis Rubiales, forseti spænska knattspyrnusambandsins, hefur verið mikið í fréttum undanfarna daga. Alex Pantling/Getty Images

Juan Rubiales, frændi Luis Rubiales – forseta spænska knattspyrnusambandsins, kallar frænda sinn gungu og segir frá veisluhöldum með táningum sem voru mögulega ólögráða.

Luis hefur ekki átt sjö dagana sæla eftir að hann kyssti Jenni Hermoso, leikmann spænska landsliðsins, á munninn eftir að Spánn sigraði England í úrslitum HM kvenna í knattspyrnu fyrr í mánuðinum.

Þó nærri allir hafi gefist upp á Luis, að móður hans undanskilinni, þá situr Luis sem fastast sem forseti spænska knattspyrnusambandsins. Það er hins vegar ljóst að móðir hans er ein á báti þegar kemur að Rubiales-fjölskyldunni og stuðningi við Luis.

Juan Rubiales starfaði fyrir frænda sinn frá 2018 til 2020 en þar áður starfaði hann sem blaðamaður. Hann mætti í viðtal við spænska miðilinn El Confidencial og það er ljóst að álit Juan á frænda sínum er ekki hátt.

Juan tekur fram í viðtalinu að öll Rubiales-fjölskyldan, fyrir utan móður Luis, standi með Jenni Hermoso. Þá bætir hann við að frændi sinn sé „gunga“ sem er sjúkur í völd, lúxuslíferni og kvenfólk.

„Hann þarf endurmenntun í því hvernig maður kemur fram við konur,“ bætti Juan við. Þá sagði hann frá veislu sem frændi hans hélt í bænum Salobreña á Spáni.

Juan lýsti því hvernig fjöldinn allur af táningsstelpum hefði verið á svæðinu, stúlkur sem voru nægilega ungar til að vera dætur hans. Juan gat ekki staðfest hvort táningarnir væru orðnir lögráða en Luis sagði að þær væru af „skemmtistöðum bæjarins.“

„Ég veit ekki hvað gerðist þar og ég vil ekki vitað það. Ég læsti mig inn í herberginu mínu og horfði á fótbolta. Ég trúði þessu ekki,“ sagði Juan um veisluna í Salobreña. Eftir veisluna ku Luis hafa eytt öllum smáskilaboðum í símanum sínum og hafa ráðið sér einkaspæjara.

„Hann var hræddur, hann hélt það myndi einhver tilkynna hvað gerðist, sagði Juan jafnframt. Þegar þetta er skrifað er Luis enn í starfi þrátt fyrir mikil mótmæli. Hversu lengi hann verður við völd verður að koma í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×