Fótbolti

Nígería vann gestgjafana óvænt og steig stórt skref í átt að sextán liða úrslitunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eftir sigurinn á Ástralíu er Nígería í dauðafæri á að komast í sextán liða úrslit HM.
Eftir sigurinn á Ástralíu er Nígería í dauðafæri á að komast í sextán liða úrslit HM. getty/Justin Setterfield

Nígería gerði sér lítið fyrir og vann heimalið Ástralíu, 2-3, í B-riðli á heimsmeistaramótinu í fótbolta kvenna.

Eftir sigurinn er Nígería á toppi riðilsins og dugir jafntefli í lokaumferðinni gegn Írlandi til að komast í sextán liða úrslit.

Bæði mörk fyrri hálfleiks komu í uppbótartíma hans. Þegar ein mínúta var komin fram yfir venjulegan leiktíma kom Emily van Egmond Áströlum yfir en Uchenna Kanu jafnaði fimm mínútum síðar.

Nígeríukonur mættu ákveðnar til leiks í seinni hálfleiks og uppskáru tvö mörk. Fyrst skoraði Os­inachi Ohale eftir hornspyrnu á 65. mínútu og sjö mínútum síðar kom Asisat Os­hoala Nígeríu í 1-3 eftir mistök í áströlsku vörninni.

Alanna Kennedy minnkaði muninn í 2-3 þegar tíu mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma en nær komst Ástralía ekki.

Ástralir eru með þrjú stig í B-riðlinum og mæta Kanadakonum í hálfgerðum úrslitaleik um sæti í sextán liða úrslitunum í lokaumferð riðlakeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×