Fótbolti

Liðsfélagi Ingibjargar fór grátandi af velli um helgina en fær að fara á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guro Pettersen fékk góðar fréttir frá lækni norska landsliðsins í gær. Hér er hún með norska landsliðinu á EM 2022.
Guro Pettersen fékk góðar fréttir frá lækni norska landsliðsins í gær. Hér er hún með norska landsliðinu á EM 2022. Getty/ Naomi Baker

Guro Pettersen, markvörður Vålerenga og norska landsliðsins, fékk grænt ljóst frá landsliðslæknum og verður því með á HM í Ástralíu og Nýja-Sjálandi.

Þetta er mikill léttir fyrir þessa 31 árs gömlu knattspyrnukonu.

Pettersen hafði yfirgefið völlinn grátandi á föstudagskvöldið eftir að hafa fengið höfuðhögg í leik á móti Lilleström í norsku deildinni.

Pettersen hefur áður þurft að glíma við afleiðingar af heilahristingi og höfuðhöggum og óttaðist það versta nú þegar það eru aðeins nokkrar vikur í heimsmeistaramótið.

Pettersen spilar með sérstakt höfuðband til að verja sig fyrir höfuðhöggum.

Liðslæknirinn skoðaði hana og hún fékk sem betur fer góðar fréttir.

„Við gerðum prófanir á Guro bæði í dag og í gær. Þessi próf hafa komið vel út og henni líður vel. Það hefur því verið ákveðið að hún fari með á HM,“ sagði læknirinn Magnus Myntevik í viðtali við Verdens Gang.

Fyrsti leikur norska landsliðsins er á móti Nýja-Sjálandi 20. júlí næstkomandi en Sviss og Filippseyjar eru einnig með í riðlinum.

Guro Pettersen er á sínu öðru tímabili sem liðsfélagi íslensku landsliðskonunnar Ingibjargar Sigurðardóttur hjá Vålerenga en þetta er í þriðja sinn sem Pettersen kemur til félagsins. Pettersen lék einnig með Vålerenga frá 2014 til 2015 og svo aftur frá 2018 til 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×