Fótbolti

Sextán ára stelpa frá Barcelona í HM-hópi Ítala en ekki fyrirliðinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Giulia Dragoni 'á fjölmarga leiki fyrir yngri landslið Ítalíu en spilaði sinn fyrsta A-landsleik um helgina.
Giulia Dragoni 'á fjölmarga leiki fyrir yngri landslið Ítalíu en spilaði sinn fyrsta A-landsleik um helgina. Getty/Giuseppe Cottini/

Það er ekki pláss fyrir fyrirliða ítalska kvennalandsliðsins í fótbolta í HM-hópnum en þar er aftur á móti sextán ára stelpa sem spilar með einu besta liði heims.

Giulia Dragoni er fædd í nóvember 2006 og spilar með Barcelona á Spáni. Hún spilaði sinn fyrsta A-landsleik um helgina. Það dugði henni til að vinna sér sæti í ítalska hópnum á heimsmeistaramótinu í Ástralíu og Nýja-Sjálandi.

Dragoni fékk frumraun sína í markalausu jafntefli á móti Marokkó á laugardaginn.

Milena Bertolini er þjálfari ítalska landsliðsins og hafði áður tekið umdeilda ákvörðun þegar hún valdi ekki fyrirliðann Söru Gama í HM-hópinn sinn. Gama er orðin 34 ára gömul en þjálfarinn sagði að hún hafi ekki valið hana vegna bæði taktískra og líkamlegra ástæðna.

Bertolini er ekki búin að tilkynna það hvaða leikmaður fái fyrirliðabandið í stað Gama. Lykilmennirnir Cristiana Girelli, Lisa Boattin og Manuela Giugliano eru í hópnum og líklegt að ein þeirra fái bandið.

Fyrsti leikur ítalska landsliðsins er á móti Argentínu 24. júlí næstkomandi en svo bíða leikir á móti Svíþjóð og Suður-Afríku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×