Fótbolti

„Við verðum að ná í úrslit og förum auðvitað í leikinn til að vinna hann“

Siggeir Ævarsson skrifar
Alfreð Finnbogason vill búa til fleiri góðar sumarminningar á Íslandi
Alfreð Finnbogason vill búa til fleiri góðar sumarminningar á Íslandi Getty/Laszlo Szirtesi

Framherjinn Alfreð Finnbogason, leikmaður Lyngby og íslenska landsliðsins, er vel stemmdur fyrir komandi landsliðsverkefni í undankeppni EM. Hann segir alltaf gaman að koma heim til Íslands á sumrin og segir að liðið stefni á sigur í dag.

„Þetta er spennandi gluggi, alltaf gaman að koma heim á sumrin. Það er gott veður og við eigum mjög góða reynslu af þessum júníleikjum og góðar minningar. Það er stefnan klárlega að búa til nýjar flottar minningar af sumarleikjum á Laugardalsvelli.“

Það er þegar orðið uppselt á seinni leik Íslands í þessum glugga, gegn Portúgal 20. júní, en enn eru um 2000 óseldir miðar á leikinn gegn Slóvakíu í dag. Alfreð tók undir að stuðningurinn úr stúkunni væri mikilvægur en það væri undir liðinu komið að trekkja fólk á völlinn

„Ekki spurning. Við viljum náttúrulega búa til þannig stemmingu í kringum liðið að það fari að verða aftur uppselt á hvern einasta leik. Það er líka bara undir okkur komið að fara að vinna leiki og sýna að við séum lið sem fólk vill horfa á.“

Klippa: Alfreð um komandi landsleiki

„Við getum ekkert kvartað yfir því að það sé ekki orðið uppselt en vonandi verður uppselt því við þurfum á stuðningnum að halda. Þetta er gríðarlega mikilvægur leikur á móti Slóvakíu þar sem línur geta skýrst aðeins í riðlinum. Við vitum að við þurfum að vinna heimaleikina okkar, allavega fjóra af fimm í þessari undankeppni ef við ætlum að eiga séns að fara áfram.“

Ísland er með þrjú stig í J-riðli eftir fyrstu tvo leikina, og þarf að bæta sigrum í sarpinn ef liðið ætlar ekki að missa af lestinni. Alfreð sagði að liðið ætli að sækja til sigurs í dag.

„Við verðum að ná í úrslit og förum auðvitað í leikinn til að vinna hann. Jafntefli, þá erum við alveg ennþá á lífi, en þá er þetta ekki komið í okkar hendur. En ef við vinnum þá erum við bara komnir á par við hin liðin og stýrum okkar eigin leið í þessum riðli og það er það sem við viljum gera.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×