Fótbolti

Fær í kringum 30 milljarða á ári fyrir að spila í Sádi-Arabíu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Benzema sáttur enda mun hann eiga fyrir salti í grautinn.
Benzema sáttur enda mun hann eiga fyrir salti í grautinn. Al Ittihad

Franski framherjinn Karim Benzema hefur samið við Al Ittihad í Sádi-Arabíu til ársins 2026. Talið er að hann þéni allt í allt um 200 milljónir evra [30 milljarðar íslenskra króna] á ári.

Hinn 35 ára gamli Benzema hefur spilað með Real Madríd síðan 2009 en hann er uppalinn hjá Lyon í heimalandinu. Alls spilaði Benzema 648 leiki fyrir Real, skoraði 354 mörk og gaf 165 stoðsendingar.

Hann varð spænskur meistari fjórum sinnum, vann spænska konungsbikarinn fjórum sinnum, Meistaradeild Evrópu fimm sinnum og HM félagsliða fimm sinnum. Þá spilaði hann 97 A-landsleiki fyrir Frakkland frá 2007 til 2022 og skoraði í þeim 37 mörk.

Hann mun nú leika listir sínar í Sádi-Arabíu til ársins 2026 hið minnsta en samningur hans við Al Ittihad býður upp á eins árs framlengingu að honum loknum.

„Al Ittihad er ný áskorun fyrir mig. Deildin er góð og það eru margir góðir leikmenn hér. Cristiano Ronaldo er hér nú þegar, hann er vinur og sýndi að Sádi-Arabía er á réttri braut. Ég er hér til að vinna líkt og ég var í Evrópu,“ sagði Benzema við undirskriftina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×