Fótbolti

Berg­lind Björg ó­létt: „Nei, ég er ekki hætt“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Berglind Björg spilaði aðeins 16 mínútur fyrir PSG á nýafstaðinni leiktíð.
Berglind Björg spilaði aðeins 16 mínútur fyrir PSG á nýafstaðinni leiktíð. Getty Images/Aurelien Meunier

Landsliðsframherjinn Berglind Björg Þorvaldsdóttir, leikmaður París Saint-Germain í Frakklandi, er ólétt. Um er að ræða hennar fyrsta barn.

Berglind Björg greindi frá þessu á samfélagsmiðlum sínum í kvöld. Þar segir að hún og Kristján Sigurðsson, kærasti hennar, eigi von á barni í nóvember. Hún tekur einnig sérstaklega fram að hún sé ekki hætt í knattspyrnu þó það sé nokkuð langt þangað til hún snúi aftur út á völl.

Landsliðsframherjinn hefur ekki átt sjö dagana sæla síðan hún samdi við franska liðið PSG á síðasta ári. Hún kom lítið sem ekkert við sögu á nýafstöðnu tímabili. Talið var næsta öruggt að hún myndi færa sig um set í sumar þó svo að samningur hennar renni ekki út fyrr en sumarið 2024.

Hin 31 árs gamla Berglind Björg hefur komið víða við á sínum ferli og spilað með stórliðum á borð við PSV í Hollandi, AC Milan á Ítalíu og Brann í Noregi. Þá hefur hún spilað fyrir Breiðablik, ÍBV og Fylki hér á landi.

Hún á að baki 72 A-landsleiki og hefur skorað í þeim 12 mörk. Þar á meðal mark Íslands í 1-1 jafnteflinu gegn Belgíu á EM sumarið 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×