Fótbolti

Arnar hafi tekið uppsögninni illa og leit að nýjum þjálfara ekki hafin

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson var rekinn úr starfi í dag.
Arnar Þór Viðarsson var rekinn úr starfi í dag. Vísir/Sigurður Már

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður Knattspyrnusambands Íslands, segir það eðlilegt að Arnar Þór Viðarsson hafi ekki tekið vel í það þegar honum var sagt upp störfum sem þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta í dag.

„Eðlilega er hann ekkert ánægður. Ég skil hann bara mjög vel og hef verið sjálf í þessum sömu sporum og þetta er ekki skemmtilegt,“ sagði Vanda í samtali við Stefán Árna Pálsson fyrr í dag.

Hún segir þó að aðstoðamenn Arnars séu enn í sinni stöðu og að ákvörðunin snúi eingöngu að Arnari.

„Þetta snýst í rauninnni bara um Arnar Þór. Við höfum auðvitað tilkynnt öllum, en það er ekki búið að taka neina ákvörðun um það.“

Þá segir Vanda að stjórn KSÍ sé ekki farin að horfa í kringum sig og leita að eftirmanni Arnars.

„Við vitum náttúrulega öll að það styttist í næsta glugga þannig að það þarf að bretta upp ermar. En eigi síður þurfum við líka að vanda okkr og gera þetta vel. En nei, við erum ekki búin að ræða við neina eða farin neitt af stað á neinn hátt.“

Hún segist þó ekki vita nákvæmlega hversu háa fjárhæð það kostar sambandið að losa Arnar undan samningi sínum.

„Ég veit nú ekkert upphæðina nákvæmlega, en að sjálfsögðu þá er það bara eins og það er alltaf. Fólk er með samninga og við stöndum við það.“

Viðtalið við Vöndu í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×