Fótbolti

Willum Þór og Orri Steinn hetjurnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Willum Þór Willumsson og félagar fagna.
Willum Þór Willumsson og félagar fagna. Twitter@GAEagles

Willum Þór Willumsson kom inn af bekk Go Ahead Eagles í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag og skoraði sigurmark liðsins í 2-1 sigri á Utrecht. Orri Steinn Óskarsson er þá kominn á blað fyrir Sønderjyske í dönsku B-deildinni. 

Willum Þór Willumsson kom inn af bekk Go Ahead Eagles í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag og skoraði sigurmark liðsins í 2-1 sigri á Utrecht. Orri Steinn Óskarsson er þá kominn á blað fyrir Sønderjyske í dönsku B-deildinni.

Willum Þór hóf leik dagsins á varamannabekknum en var sendur inn á þegar tæpur hálftími var til stefnu, staðan þá 1-1. Þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma gerði Willum Þór það sem hann var sendur inn af bekknum til að gera, skilaði boltanum í netið og tryggði sínum mönnum stigin þrjú.

Nýliðar G. A. Eagles lyfta sér þar með upp í 11. sæti deildarinnar með 29 stig að loknum 25 leikjum.

Orri Steinn byrjaði einnig á bekknum í dag en hann er á láni hjá Sønderjyske frá Danmerkurmeisturum FC Kaupmannahöfn. Atli Barkarson var hins vegar í byrjunarliði Sønderjyske og spilaði allan leikinn.

Gestirnir í Nykobing leiddu 1-0 í hálfleik og var Orri Steinn sendur á vettvang til að jafna metin. Það gerði hann þegar sex mínútur voru til leiksloka og fór það svo að leiknum lauk með 1-1 jafntefli.

Um var að ræða síðasta leik hefðbundinnar deildarkeppni. Endar Sønderjyske í 4. sæti með 35 stig, níu stigum á eftir Hvidovre sem situr í 2. sæti deildarinnar. Efstu sex liðin munu nú spila tvöfalda umferð og að henni lokinni kemur í ljós hvaða lið hafa unnið sér inn sæti í dönsku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×