Fótbolti

Segir Messi ekkert hafa gert fyrir PSG

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lionel Messi náði sér ekki á strik í leikjunum gegn Bayern München.
Lionel Messi náði sér ekki á strik í leikjunum gegn Bayern München. getty/Chris Brunskill

Lionel Messi hefur ekki gert neitt fyrir Paris Saint-Germain og leggur sig ekki nóg fram fyrir félagið. Þetta segir Jérome Rothen, fyrrverandi leikmaður PSG.

Rothen gaf Messi engan afslátt eftir að PSG féll úr leik fyrir Bayern München í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu fyrr í vikunni. Bæjarar unnu einvígið, 3-0 samanlagt.

Rothen, sem lék með PSG á árunum 2004-10, var ekki hrifinn af framlagi Messis í leiknum á miðvikudaginn og segir allt annað að sjá hann þegar hann spilar með PSG og svo argentínska landsliðinu. Sem frægt er leiddi Messi Argentínumenn til heimsmeistaratitils í Katar í lok síðasta árs.

„Grínið er að við sáum leikina hans í Katar, hvernig hann hreyfði sig og lagði sig fram. Og það er allt í lagi, þetta er jú einu sinni landsliðið og annar hlutur en berðu smá virðingu fyrir félaginu þínu sem gerir þér kleift að halda stöðu þinni og launum,“ sagði Rothen.

„Aðeins PSG gæti fært honum það og félagið féll að fótum hans því það hélt að Messi myndi hjálpa því að vinna Meistaradeildina. En hann vinnur hana ekki neitt!“

Rothen var ekki hættur og hélt áfram að gagnrýna Messi. „Hann vill ekki vera tengdur félaginu. Hann segir að hann hafi aðlagast en hverju hefur hann aðlagast? Þú skoraðir átján mörk og lagði upp sextán í ár gegn Angers og Clermont. En í leikjunum sem skipta máli hverfurðu.“

Messi hefur ekki unnið Meistaradeildina síðan 2015 þegar hann lék með Barcelona. Bæði tímabilin sín hjá PSG hefur liðið fallið úr leik í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×