Fótbolti

Neymar undir hnífinn og frá næstu þrjá til fjóra mánuðina

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Neymar meiddist í leik þann 20. febrúar síðastliðinn.
Neymar meiddist í leik þann 20. febrúar síðastliðinn. Tim Clayton/Getty Images

Vonir Frakklandsmeistara París Saint-Germain um að vinna Meistaradeild Evrópu minnkuðu til muna í dag þegar staðfest var að Brasilíumaðurinn Neymar þurfi að fara í aðgerð á hægri ökkla. Verður hann frá næstu þrjá til fjóra mánuðina.

Neymar meiddist í deildarleik gegn Lille í febrúar. Var hann borinn af velli og strax ljóst að meiðsli hins 31 árs gamla framherja væru alvarleg. Um er að ræða sama ökkla og varð þess valdandi að Neymar missti af tveimur leikjum með Brasilíu á HM í Katar undir lok síðasta árs.

Eftir leikinn gegn Lille var staðfest að liðbönd á ökkla væru sköðuð. Vitað var að Neymar yrði hvergi sjáanlegur þegar PSG myndi heimsækja Bayern München í síðari leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Bayern leiðir einvígið 1-0 eftir góðan sigur í París.

Í dag staðfesti Christophe Galtier, þjálfari PSG, að Neymar væri á leið í aðgerð vegna meiðslanna og yrði frá í 3-4 mánuði. Þetta er mikið högg fyrir Parísarliðið sem virðist vera á leið út úr Meistaradeildinni, er þegar fallið úr leik í franska bikarnum en er þó með átta stiga forystu á Marseille heima fyrir í baráttunni um franska meistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×