Fótbolti

Man. United mætir aftur spænsku liði í Evrópudeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antony fagnar sigurmarki Manchester United á móti Barcelona ásamt félögum sínum Alejandro Garnacho og Bruno Fernandes.
Antony fagnar sigurmarki Manchester United á móti Barcelona ásamt félögum sínum Alejandro Garnacho og Bruno Fernandes. AP/Dave Thompson

Manchester United tryggði sér sæti í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar með því að slá út Barcelona í gær og í dag kom í ljós hvaða lið stendur á milli lærisveina Erik ten Hag og átta liða úrslita keppninnar.

Leiðir Manchester United í Evrópudeildinni á þessu tímabili liggja mikið til Spánar en það kom í ljós þegar dregið var í sextán liða úrslit Evrópudeildarinnar í Nyon í Sviss í dag.

Sigurvegarar riðlanna, sem komust beint áfram, voru í fyrsta styrkleikaflokki og liðin sem komust í gegnum umspilið voru í öðrum styrkleikaflokki. Liðin í sama styrkleikaflokki gátu ekki dregist saman og heldur ekki lið frá sama landi.

Manchester United mætir spænska liðinu Real Betis í næstu umferð. Real Betis vann sinn riðil þar sem voru líka Roma, Ludogorets Razgrad og HJK frá Finnlandi.

United var með Real Sociedad í riðli og mætti svo Bartcelona í umspilinu um sæti í sextán liða úrslitunum.

Topplið ensku úrvalsdeildarinnar í Arsenal lenti á móti Sporting CP frá Portúgal. Sporting sló út danska liðið Midtjylland 5-1 samanlagt í umspilinu.

Jose Mourinho og lærisveinar hans í Roma drógust á móti Real Sociedad sem var eins og áður sagði með Manchester United í riðli.

Ítalska stórliðið Juventus mætir Freiburg frá Sviss sem er enn ósigrað í keppninni.

Fyrri leikurinn fer fram 9. mars en seinni leikurinn síðan viku síðar eða 16. mars.

  • Liðin sem mætast í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar 2022-23:
  • Union Berlin - Union Saint-Gilloise
  • Sevilla - Fenerbahce
  • Juventus - SC Freiburg
  • Bayer Leverkusen - Ferencváros
  • Sporting CP - Arsenal
  • Manchester United - Real Betis
  • Roma - Real Sociedad
  • Shakhtar Donetsk - Feyenoord



Fleiri fréttir

Sjá meira


×